Home / Fréttir / Finnar segja fjölþátta ógnir Rússa aukast – vilja Viðnámssamband innan ESB

Finnar segja fjölþátta ógnir Rússa aukast – vilja Viðnámssamband innan ESB

Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands.

Rússar ráðast á ESB-lönd á margan hátt segir Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands, við vefritið Politico fimmtudaginn 23. maí. „Við verðum að horfast í augu við að hegðun Rússa hefur breyst. Rússar sýna árásargirni og nota alls kyns fjölþátta aðferðir gegn Vesturlöndum, gegn Evrópu,“ sagði ráðherrann á fjarfundi frá skrifstofu sinni í Helsinki.

Finnar hafa mátt þola margt af óvinveittum toga – þeir saka Rússa um að standa að mörgu af því.

Í fyrra var Balticconnector, gasleiðsla milli NATO-ríkjanna Finnlands og Eistlands, rofin og auk þess fjarskiptastrengir í sjó milli Eistlands, Finnlands og Svíþjóðar.

Á Eystrasaltssvæðinu hefur hvað eftir annað og mjög oft komið til truflana á GPS-kerfinu og benda rannsóknir til að þær megi rekja til Rússa. Finnair hætti flugi til Tartu í Eistlandi vegna þessara truflana og eistnesk yfirvöld skella skuldinni á Rússa.

Þá hafa Rússar sent hundruð farandfólks yfir landamæri sín til Finnlands. Lokuðu finnsk stjórnvöld landamærunum gagnvart Rússlandi.

Miðvikudaginn 22. maí lagði rússneska varnarmálaráðuneytið fram tillögur um stækkun á lögsögu Rússa á Eystrasalti (þær voru síðan dregnar til baka með hraði).

„Rússar hafa ekki haft samband við Finna um málið. Finnar taka á málinu á sama hátt og þeir gera ávallt: rólega og með vísan til staðreynda,“ sagði Orpo í yfirlýsingu.

Politico segir að Finnar hafi verið undir smásjá frá Moskvu undanfarið vegna hernaðarlegrar legu sinnar og aðildarinnar að NATO á árinu 2023. Þá hættu Finnar að standa utan hernaðarbandalaga með vísan til innrásar Rússa í Úkraínu.

Politico bendir jafnframt á að annars staðar í Evrópu finni menn meira en áður fyrir óvinveittu áreiti frá Rússum.

Snemma í maí tilkynntu stjórnvöld Þýskalands, Póllands og Tékklands að rússneskir tölvuþrjótar sem eru kallaðir Fancy Bear hafi ráðist á sig. Nú í vikunni handtóku Pólverjar níu menn sem grunaðir eru um þátttöku í rússneskum skemmdarverkahópi. Þá hafa Tékkar sakað Rússa um að vega að öryggi járnbrautarlesta.

Stjórnvöld Rússa og Belarús hafa einnig leyft þúsundum farandfólks að fara ólöglega yfir landamæri sín gagnvart Póllandi, Litháen og Lettlandi.

„Þetta framferði Rússa sýnir að við verðum að búa okkur undir árásir á mikilvæg grunnkerfi, orkukerfi, netkerfi o. fl.,“ sagði Orpo.

Finnski forsætisráðherrann hvetur til þess að ESB styrki getu sína til að svara ógnum af þessu tagi.

Hann vill að í næstu strategísku áætlun ESB (e. EU Strategic Agenda) fyrir árið 2024-2029 verði að finna tillögu Finna um að koma á fót Viðbúnaðarsambandi ESB (e. EU Preparedness Union) að finnskri fyrirmynd í því skyni að auka viðnámsþol ESB í heild. Vill hann að þetta verði samþykkt nú í júní 2024.

Í mars 2024 fór Ursula von der Leyen þess á leit við Sauli Niinistö, fyrrverandi forseta Finnlands, að semja skýrslu um viðbúnað, bæði borgaralegan og hernaðarlegan.

Orpo segir að Viðbúnaðarsambandið sé ekki aðeins til vegna Rússa eða til að búa sig undir stríð, ógnir geti einnig stafað af faröldrum, umhverfisvá, orkukreppu og mörgu öðru.

Finnska ríkisstjórnin lagði þriðjudaginn 21. maí tillögu fyrir finnska þingið um að hætt yrði að taka við öllum hælisumsóknum á nokkrum stöðum við finnsku landamærin. Mannréttindahópar hafa gagnrýnt tillöguna. Þeir segja að hún brjóti gegn alþjóðlegum skuldbindingum Finna gagnvart fólki sem leiti að hæli undan ofsóknum.

Pólverjar og fleiri hafa einnig sætt gagnrýni fyrir að reka farandfólk aftur til baka inn í Belarús og gefa því. ekki færi á að leggja inn hælisumsókn.

„Um þessar mundir er ástandið rólegt á landamærunum vegna þess að við höfum gripið til strangra aðgerða, við höfum lokað öllum landamærastöðvum en við vitum að enn bíða þúsundir innflytjenda frá þriðju ríkjum eftir að geta komist að landamærum okkar og við vitum að Rússar geta notað þá hvenær sem er,“ sagði Orpo.

ESB samþykkti í ár reglur um farandfólk sem auðveldar stjórnvöldum að vísa frá sér fólki sem ríkisstjórnir þriðju ríkja hafa hvatt til að ferðast ólöglega til ESB. Orpo telur hins vegar ekki nóg að gert af hálfu ESB við landamæraeftirlitið.

„Okkur skortir tæki til að stöðva að gripið sé til þessara aðgerða og það er annað verkefni,“ sagði hann. „Það snýst ekki um að hafa stjórn á straumi innflytjenda. Við þurfum að stöðva strauminn því að hann er vopn sem er notað gegn okkur.“

 

Heimild: Politico

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …