Finnska utanríkisráðuneytið sendi fimmtudaginn 15. nóvember skýrslu til utanríkismálanefndar finnska þingsins um truflanir á gervihnattar flugleiðsögu sendingum (GPS). Ráðuneytið taldi ekki við hæfi að birta niðurstöðu rannsóknar sinnar opinberlega.
Finnsk yfirvöld rannsaka enn hver stóð fyrir GPS-truflununum í Norður-Noregi og Norður-Finnlandi á sama tíma og NATO-varnaræfingin Trident Juncture fór þar fram. Finnska utanríkisráðuneytið segir að það telji unnt að treysta niðurstöðum norskra yfirvalda í málinu.
Í frétt á vefsíðunni Barents Observer 15. nóvember segir að á vefsíðunni hafi fyrst 2. nóvember verið skýrt frá því að GPS sendingar hefðu verið truflaðar. Þá lentu flugmenn farþegavéla á ferð yfir fylkin Troms og Finnmörku í Norður-Noregi í vandræðum vegna þess að gervihnattarsamband slitnaði.
Talsmaður norsku flugmálastjórnarinnar taldi ekki unnt að útliloka að truflunina í almennu áætlunarflugi mætti rekja til hernaðarlegra æfinga utan landamæra Noregs.
Við svo búið var birt viðvörun til flugmanna á leið til flugvallanna í Kirkenes og á Vadsø skammt frá norsku landamærunum að rússneska Kóla-skaganum.
Skömmu síðar gáfu finnsk flugmálayfirvöld út viðvaranir til flugmanna í almennu flugi yfir Lapplandi, frá Rovaniemi allt norður til Ivalo.
Finnska utanríkisráðuneytið sagði fimmtudaginn 15. nóvember að málið yrði rætt við fulltrúa Rússlands. Norsk yfirvöld hafa tvisvar sinnum rætt atvik af þessu tagi við rússneska stjórnarerindreka.