Home / Fréttir / Finnar ræða samstarfssamning um varnir við Bandaríkjamenn

Finnar ræða samstarfssamning um varnir við Bandaríkjamenn

Finnskir hermenn á æfingu í apríl 2023.

Norska ríkisútvarpið, NRK, skýrði frá því fimmtudaginn 4. maí að viðræður færu nú fram milli finnskra og bandarískra stjórnvalda um gerð samstarfssamnings um varnir, Defence cooperation agreement, DCA-samning. Finnar urðu nýlega aðilar að NATO.

Norðmenn hafa gert slíkan samstarfssamning við Bandaríkjamenn. Í honum felst að Bandaríkjaher hefur heimild til að reisa mannvirki og geyma vopn í fjórum norskum herstöðvum. Byggt verður skýli yfir P8-kafbátaleitarvélar í Evenes. Einnig er bandarísk aðstaða á flugvöllunum í Rygge og Sola og hafnaraðstaða í Ramsund.

Bandarískum starfsmönnum ber að lúta norskum lögum í herstöðvunum en fremji þeir lögbrot sæta þeir saksókn og refsivörslu af bandarískum yfirvöldum.

Vitnað er í finnska dagblaðið Helsingin Sanomat sem segir að viðræðum Finna og Bandaríkjamanna verði fram haldið árið 2024 áður en tillaga að samningi verði lögð fyrir finnska þingið.

NRK segir að Mikael Antell, fyrrverandi sendiherra Finna í Noregi, sé formaður finnsku viðræðunefndarinnar. Hann hafi fylgst náið með norskum umræðum um „bandarísku herstöðvarnar“ eins og þær eru kallaðar af þeim sem gagnrýna þetta samstarf við Bandaríkjaher í Noregi.

Í samtali við Helsingin Sanomat segir Antell að Finnar kunni að fara sömu leið og Norðmenn við gerð DCA-samnings og gera ráð fyrir að Bandaríkjamenn beri sjálfir kostnað af mannvirkjum sínum í finnskum herstöðvum og á flugvöllum.

NRK segir að Bandaríkjamenn ræði nú einnig við Svía og Dani um gerð DCA-samninga jafnvel þótt ekki hafi enn verið gengið formlega frá aðild Svía að NATO.

Allt frá því að Finnar lýstu áhuga á að ganga í NATO fyrir um það bil einu ári hafa rússnesk yfirvöld sagt að þau mundu grípa til mótvægisaðgerða en sameiginleg landamæri Finna og Rússa eru 1340 km löng.

Eftir að fréttir bárust af DCA-viðræðum Finna og Bandaríkjamanna sagði Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, við rússnesku TASS-fréttastofuna að nauðsynlegt yrði að grípa til „hertæknilegra og annarra mótvægisaðgerða“.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …