Home / Fréttir / Finnar og Svíar glíma við tjón á leiðslum á hafsbotni

Finnar og Svíar glíma við tjón á leiðslum á hafsbotni

Kortið sýnir Finnska flóa og austurhluta Eystrasalts. Balticconnector sést á kortinu þar fyrir vestan er fjarskiptastrengurinn milli Eistlands og Svíþjóðar.

Antti Häkkänen. varnarmálaráðherra Finnlands, sagði þriðjudaginn 17. október að eftirlit yrði hert neðansjávar í Finnska flóa og Eystrasalti. Undanfarið hafa finnsk yfirvöld leitað af sér grun um að skemmdarverk hafi verið unnið snemma morguns sunnudaginn 8. október á Balticconnector, jarðgasleiðslu og fjarskiptastreng, sem liggur neðansjávar á milli Finnlands og Eistlands.

Ummæli Häkkänens féllu skömmu áður en sænsk stjórnvöld tilkynntu síðdegis þriðjudaginn 17. október að fjarskiptastrengur á botni Eystrasalts milli Svíþjóðar og Eistlands hefði orðið fyrir tjóni um svipað leyti og skorið var Balticconnector.

Carl-Oskar Bohlin, almannavarnaráðherra Svía, sagði að skaðinn á strengnum til Eistlands hefði orðið utan efnahagslögsögu Svía og strenginn hefði mátt nota áfram þrátt fyrir skemmdirnar.

„Við getum ekki á þessari stundu sagt hvað olli tjóninu,“ sagði Bohlin á blaðamannafundi. „Við getum hins vegar sagt að tjónið var á svipuðum tíma og ekki langt frá þeim stað sem áður hefur verið nefndur vegna tjóns á gasleiðslu milli Eistlands og Finnlands og fjarskiptastreng milli Eistlands og Finnlands.“

Häkkäenen skýrði frá því í liðinni viku að hann hefði rætt atvikið sem varð 8. október við Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, og varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Bretlands, Þýskalands og Svíþjóðar auk annarra norrænna ríkja.

Sauli Niinistö Finnlandsforseti hefur einnig rætt málið við Stoltenberg sem lofaði að NATO mundi veita aðstoð til að greina ástæður þess að Balticconnector rofnaði.

Finnskir embættismenn útiloka ekki að um ásetning hafi verið að ræða hjá þeim sem unnu skemmdarverkið.

Í september 2022 voru þrjú af fjórum rörum í Nord Stream 1 og 2 gasleiðslunum milli Rússlands og Þýskalands sprengd á hafsbotni skammt frá dönsku Eystrasaltseyjunni Borgundarhólmi. Þar með var tekið fyrir gassölu Rússa til Þjóðverja. Ekki hefur verið upplýst um hver vann það skemmdarverk.

Vakin er athygli á því á norsku vefsíðunni Barents Observer miðvikudaginn 18. október að rússneski ísbrjóturinn Sevmorput og kínverska gámaskipið Newnew Polar Bear hafi siglt yfir Balticconnector og fjarskiptastrenginn á sama tíma og  þeir urðu fyrir tjóni. Nú sigla skipin saman undan Norður-Noregi  á leið til Asíu eftir Norðurleiðinni, siglingaleiðinni frá Atlantshafi til Kyrrahafs fyrir norðan Rússland.

Þau fóru yfir heimskautsbauginn við Noreg að morgni miðvikudagsins 18. október. Var kínverska skipið nokkrum klukkustundum á eftir rússneska ísbrjótnum.

Barents Observer segir að Sevmorput njóti ríkisstuðnings til að auðvelda skipum að nota Norðurleiðina og fá fleiri skipafélög til að senda skip sín þessa leið með varning milli Evrópu og Asíu.

Newnew Polar Bear á leiðinni til Hong Kong samkvæmt leyfisbréfi frá Rosatom sem stjórnar siglingum um Norðurleiðina. Leyfið rennur út 31. október og nær til heimildar til að njóta aðstoðar ísbrjóts.

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …