Home / Fréttir / Finnar og Svíar á beinu brautinni inn í NATO

Finnar og Svíar á beinu brautinni inn í NATO

Ritað undir þrihliða samkomulag Tyrkja, Finna og Svía 28. júní 2022.
Fremri röð:
Mevlüt Çavuşoğlu utanríkisráðherra Tyrkja, Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finna og Ann Linde, utanríkisráðherra Svía.
Aftari röð:
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, Recep Tayyip Erdoğan forseti Tyrklands, Sauli Niinistö, forseti Finnlands og Magdalena Andersson forsætisráðherra Svíþjóðar.

Forystumenn Finna, Svía og Tyrkja ræddu saman í Madrid síðdegis þriðjudaginn 28. júní fyrir ríkisoddvitafund NATO og komust að niðurstöðu sem varð til þess að Tyrkir féllu frá andstöðu sinni við aðild Finna og Svía að Atlantshafsbandalaginu. Fá þjóðirnar nú stöðu boðsríkja að NATO á meðan öllum formsatriðum er fullnægt. Þá er þess beðið að þjóðþing NATO-ríkjanna 30 samþykki aðildina áður en hún verður formlega gild.

Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svía, Sauli Niinistö, forseti Finnlands, og Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sátu fundinn í boði Jens Stoltenbergs, framkvæmdastjóra NATO.

„Þetta var mjög langur fundur, Sauli Niinistö og ég gátum lýst öllu því sem við í Svíþjóð höfum gert til að lögfesta aðgerðir gegn hryðjuverkum á undanförnum árum og nú 1. júlí verður þessi löggjöf umtalsvert strangari,“ sagði Andersson eftir fundinn.

Andstaða Tyrkja mótaðist af kröfum þeirra varðandi tyrkneska hópa sem Erdogan og stjórn hans skilgreinir sem hryðjuverkamenn Kúrda. Þá ósku‘u Tyrkir einnig eftir meira svigrúmi til vopnakaupa frá Svíþjóð og Finnlandi.

Í fréttatilkynningu NATO sagði að utanríkisráðherrar Tyrklands, Svíþjóðar og Finnlands hefðu ritað undir þríhliða samkomulag undir fyrirsögninni: Réttmæt öryggissjónarmið Tyrkja.

Jens Stoltenberg sagði að ríkisoddvitar NATO-ríkjanna gætu nú sent formlegt boð til Finna og Svía um aðild að bandalaginu. Stoltenberg sagði:

„Mér er ánægja að tilkynna að nú liggur fyrir samkomulag sem opnar leið Finna og Svía inn í NATO. Fulltrúar Tyrkja, Finna og Svía hafa skrifað undir samkomulag þar sem vísað er til öryggissjónarmiða Tyrkja, þar á meðal varðandi útflutning á vopnum og baráttu gegn hryðjuverkum.“

Hann bætti við að sem verðandi NATO-aðilar mundu Finnar og Svíar ekki styðja PYD, Lýðræðissambandsflokkinn í Sýrlandi, sem stjórnar sjálfstjórnarhéraði í Norður- og Austur-Sýrlandi og mundu ekki styðja Gülen-hreyfinguna.

Í samkomulaginu er bann við stuðningi við PYD en hins vegar er PKK, Verkamannaflokki Kúrda, lýst sem hryðjuverkasamtökum. Tyrkir kröfðust þess i upphafi að litið yrði á PKK/PYD sem einn og sama hópinn.

Unfanfarin ár hafa Svíar ekki flutt út vopn til Tyrkland og hafa Tyrkir litið á það sem vopnasölubann, því er nú aflétt. Segir í samkomulaginu að Svíar muni breyta reglum sínum um vopnasölu á þann veg að þær falli að óskum bandamanna innan NATO. Framvegis verði útflutningi á vopnum frá Finnlandi og Svíþjóð hagað í samræmi við 3. gr. Atlantshafssáttmálans.

Sænska blaðið Dagens Nyheter segir að sænska öryggislögreglan, Säpo, hafi tekið saman lista yfir „að minnsta kosti tíu“ manns sem búa í Svíþjóð með tengsl við PKK og framselja megi til Tyrklands. Segir blaðið að tveir hafi þegar verið framseldir í ár og fleiri kunni að fylgja,

Sauli Niinistö Finnlandsforseti lagði á það áherslu á blaðamannafundi að þríhliða samkomulagið snerti ekki neina einstaklinga sem Tyrkir vildu frá framselda. Þar segði hins vegar að Finnar og Svíar skuldbindi sig til að afgreiða framsalsbeiðnir á „skilvirkan og nákvæman“ hátt.

Heimild: Local.se

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …