Home / Fréttir / Finnar loka öllum landamærastöðvum við Rússland

Finnar loka öllum landamærastöðvum við Rússland

Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands.

Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands, sagði sunnudaginn 26. nóvember að Finnar kynnu að loka alveg landamærum sínum gagnvart Rússlandi. Þeir lokuðu fyrst fjórum landamærastöðvum í Suðaustur-Finnlandi fyrir rúmri viku. Í liðinni viku lokuðu þeir öllum stöðvum í norðurhlutanum nema einni afskekktri, Raja-Jooseppi í Lapplandi.

Laugardaginn 25. nóvember komu hins vegar 55 hælisleitendur að einu opnu stöðinni. Þeir hefðu ekki getað gert það án aðstoðar rússneskra yfirvalda sem hafa flutt Mið-Austurlandabúa norður fyrir heimskautsbaug og látið þeim í té reiðhjól til að fara yfir finnsku landamærin ­– þau eru lokuð öllum fótgangandi.

Síðdegis sunnudaginn 26. nóvember var Raja-Jooseppi lokað það sem eftir var þess dags.

Í samtalsþætti í finnska ríkisútvarpinu, Yle, sunnudaginn 26. nóvember sagði Petteri Orpo að engar girðingar væru á um 1300 km landamæranna gagnvart Rússlandi og lög heimiluðu finnskum yfirvöldum að loka landamærastöðvum. Yrði það gert gæti fólk leitað alþjóðlegrar verndar við komuna til Helsinki-flugvallar eða finnskra hafna.

Forsætisráðherrann sagði erfitt að senda fólk aftur til Rússlands þar sem rússnesk yfirvöld neituðu að taka við þeim sem hefðu verið á landamærasvæði þeirra. „Fólki er ýtt að landamærunum og fær ekki leyfi til að snúa til baka,“ sagði forsætisráðherrann og við þetta ykist andúð Finna á Rússum.

„Rússnek yfirvöld skammast sín ekki fyrir að nýta sér borgara þriðju ríkja,“ sagði Orpo um tilraunir Moskvumanna til að grafa undan stöðugleika í vestrænum ríkjum.

Frá því í ágúst hafa rúmlega 800 leitað hælis í Finnlandi yfir rússnesku landamærin. Finnsk stjórnvöld segja ferðum fólksins stjórnað frá Moskvu til að hefna fyrir aðild Finnlands að NATO.

Fyrir liggur að rússnesk landamærayfirvöld hleypa skilríkjalausu fólki að finnsku landamærunum. Yfirvöldin láti ekki við það eitt sitja heldur leggi sig fram um að koma þeim að landamærastöðvum Finna.

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …