Home / Fréttir / Finnar leyfa NATO-njósnaflug við rússnesku landamærin

Finnar leyfa NATO-njósnaflug við rússnesku landamærin

Bandarísk njósnaþota af gerðinni RC-135 Rivet Jones.

Finnar hafa tekið aðra stefnu en Norðmenn varðandi eftirlitsflug undir merkjum NATO við landamæri Rússlands. Norðmenn banna allt eftirlitsflug í þágu NATO-samstarfsins nálægt rússnesku landamærunum en Finnar leyfa það.

Bandarísk eftirlitsþota fór fimmtudaginn 23. mars norður með landamærum Finnlands og Rússlands. Finnski flugherinn sendi út tilkynningu um að vélin yrði á ferðinni og tók fram að engin breyting hefði orðið á ástandi öryggismála Finnlands eða í nágrenni landsins nýlega. Flugferðir í samvinnu við alþjóðlega samstarfsaðila væru liður í eðlilegum tvíhliða og fjölþjóðlegum samskiptum.

Í frétt um ferðir vélarinnar á norsku vefsíðunni Barents Observer laugardaginn 25. mars segir ritstjóri síðunnar Thomas Nilsen að ekki sé unnt að segja að flugið 23. mars hafi verið eðlilegt, þvert á móti hafi bandarísk RC-135 Rivet Jones þota þá í fyrsta sinn í sögunni farið inn í finnska lofthelgi.

Vélin, sem hóf sig á loft frá Mildenhall flugherstöðinni fyrir norðan London, flaug fyrst yfir Eystrasaltsríkin áður en hún fór inn í finnska lofthelgi fyrir austan Helsinki. Þaðan hélt hún sem leið liggur norður með landamærum Rússlands.

Þotan hafði hafði kveikt á radarsvara sínum í alþjóðlegu loftrými öfugt við það sem gert er í rússneskum eftirlitsvélum. Það var því unnt að fylgjast með ferð vélarinnar á vefsíðum eins og FlightRadar24.com sem sýna flugleið véla.

Thomas Nilsen segir að nokkrum kílómetrum fyrir norðan heimskautsbaug hafi vélinni verið snúið 180 gráður og síðan flogið sömu leið til baka. Nyrst flaug vélin yfir Rovaniemi flugherstöðina, bækistöð Lapland-flugherstjórnarinnar sem fer með eftirlit í lofthelgi Finna í norðri.

Á Barents Observer er rætt við herfræðinginn Per Erik Solli á Norsku utanríkismálastofnuninni (NUPI) sem segir flugið markvert því að nú geti NATO notað loftrýmið yfir mið- og norðurhluta Finnlands til að safna upplýsingum um það sem gerist í herstöðvaneti Rússa á Kólaskaga.

Á Kólaskaga eru heimahafnir langdrægu rússnesku kjarnaorkukafbátanna og fjölnota kafbáta með langdrægar stýriflaugar og flugvellir ofurhljóðfrárra sprengjuvéla.

Um borð í RC-135 River Joint vélum er njósnabúnaður í þágu NATO sem nemur svo að segja á rauntíma hernaðarleg rafeindaboð Rússa. Þá er einnig unnt að hlera hernaðarleg fjarskipti um borð í vélunum og finna varnarratsjár Rússa og önnur tæki sem senda frá sér merki. Flugvélum af þessari gert er oft flogið yfir Svartahaf, yfir Eystrasalt í nágrenni Kaliningrad og norður í Barentshaf.

Per Erik Solli segir við Barents Observer að Norðmenn hafi breytt stefnu sinni varðandi ferðir eftirlitsflugvéla NATO-ríkja á Barentshafi. Þar til nýlega hafi vélar á leið þangað orðið að fljúga utan norskrar lofthelgi frá Evrópu inn á Barentshaf en nú megi þær fljúga yfir norskt land.

Per Erik Solli segir að það verði forvitnilegt að sjá hvort aðild Svía og Finna að NATO verði til þess að Norðmenn falli frá gömlum fyrirvörum sínum varðandi eftirlitsflug NATO-bandamanna í nágrenni rússnesku landamæranna.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …