
Jafnaðarmaðurinn Antti Rinne, forsætisráðherra Finna, baðst lausnar þriðjudaginn 3. desember skömmu áður þingumræður um stöðu hans áttu að hefjast. Með lausnarbeiðni forsætisráðherrans breyttist ríkisstjórnin í starfsstjórn þar til finnska þingið samþykkir stuðning við nýjan forsætisráðherra.
Forseti finnska þingsins, Matti Vanhanen, fyrrverandi forsætisráðherra Miðflokksins, hvatti til þess eftir afsögn forsætisráðherrans að sömu fimm flokkar sem mynduðu stjórnina undir forsæti Rinne störfuðu áfram saman. Þykir líklegt að svo verði eftir uppstokkun innan stjórnarinnar.
Rinne ákvað að segja af sér eftir að talsmenn helsta samstarfsflokks jafnaðarmanna í ríkisstjórninni, Miðflokksins, lýstu efasemdum um störf hans. Miðflokksmenn hafa þó ekki áhuga á kosningum enda hefur Finnaflokkurinn, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, styrkt mjög stöðu sína og mælist nú, fimmtudaginn 5. desember, með 24,3% fylgi, næststærstur er Kokoomus (Samlingspartiet), mið-hægriflokkurinn, með 18,6% en hann er einnig í stjórnarandstöðu.
Til þessa hafa talsmenn Finnaflokksins sem einkennist af þjóðernislegri stefnu sinni ekki hvatt til myndunar nýrrar ríkisstjórnar eða kosninga en þingmenn flokksins eru annar stærsti þingflokkurinn. Jafnaðarmannaflokkurinn (SDP) á flesta þingmenn en nú mælist flokkurinn aðeins með 13,2% fylgi.
Um áramótin láta Finnar af forsæti í leiðtoga- og ráðherraráði ESB og síðasti leiðtogaráðsfundur undir forsæti þeirra verður fimmtudaginn 12. desember. Fimm flokka mið-vinstristjórn Rinne settist að völdum fyrir tæpum sex mánuðum en kosið var til finnska þingsins í apríl 2019.
Framvindan varð hröð í finnskum stjórnmálum eftir að Sirpa Paatero (SPD), ráðherra opinberra hlutafélaga, sagði af sér föstudaginn 29. nóvember. Hún hafði leynt þingmenn vitneskju sinni um að Finnlandspóstur ætlaði að lækka ýmsa starfsmenn sína í launum með því að færa þá á milli flokka. Síðan hafa komið í ljós vísbendingar um að forsætisráðherrann Rinne, fyrrv. verkalýðsforingi, hafi einnig vitað um þessi áform og samþykkt þau í ágúst áður en verkfall póstmanna hófst í haust.
Formenn stjórnarflokkanna fimm efndu til neyðarfundar seint að kvöldi sunnudags 1. desember. Mánudaginn 2. desember birti Miðflokkurinn vægt orðaða yfirlýsingu með gagnrýni á Rinne. Hann neitaði að segja af sér og krafðist þess í stað skýringa af hálfu Miðflokksins að kvöldi mánudagsins.
YLE, finnska ríkisútvarpið, segir að Rinne hafi ákveðið að sitja þar til miðflokksmenn krefðust þess afdráttarlaust að hann segði af sér. Eftir að mál skýrðust á fundi Rinne með Katri Kulmuni, formanni Miðflokksins, að morgni þriðjudags 3. desember tók Rinne ákvörðun um að biðjast lausnar.
Framganga Miðflokksins innan ríkisstjórnarsamstarfsins mælist ekki vel fyrir meðal kjósenda ef marka má fyrrnefnda skoðanakönnun sem sýnir flokkinn með minna fylgi en áður, aðeins 10,6%.

Sanna Marin (34 ára), samgöngu- og fjarskiptamálaráðherra, varaformaður Jafnaðarmannaflokksins, sat fundi í Brussel í byrjun vikunnar en hélt þaðan í flýti til að taka forystuna í sínar hendur eins og hún gerði á liðnum vetri þegar Rinne var lengi frá störfum vegna veikinda. Við komuna til Helsinki þriðjudaginn 3. desember sagðist hún ekki skorast undan „ábyrgð sinni við þessar erfiðu aðstæður“.
Í dagblaðinu Iltalehti segir að það verði verkefni Marin að leiða viðræður um nýja stjórn. Þetta er annað kjörtímabil hennar, hún situr á þingi fyrir Tampere og varð ráðherra í júní 2019. Verði hún forsætisráðherra yrði hún yngst til að gegna embættinu en Miðflokksmaðurinn Esko Aho var 36 ára þegar hann varð forsætisráðherra árið 1991.
Formaður þingflokks jafnaðarmanna, Antti Lindtman (37 ára), segist einnig til þess búinn að verða forsætisráðherra.
Rinne segir marga hæfa til að taka við ráðherraembættinu af sér en hann ætli að sækja eftir endurkjöri sem formaður SPD á landsfundi flokksins sumarið 2020.
Stjórn Jafnaðarmannaflokksins kemur saman sunnudaginn 8. desember og ræðir hver verður forsætisráðherraefni flokksins.
Stjórnmálaskýrendur segja að í raun hafi ekki verið skýrt til hlítar hvers vegna Rinne baðst lausnar. Hann hafi ekki gefið fullnægjandi svör við spurningum um það og óljóst sé hvers vegna miðflokksmenn misstu traust á honum. Það sé ekki beint lýðræðislegt að varpa forsætisráðherra á dyr án þess að skýra hvers vegna það var gert. Margt sé óljóst um gang mála innan Finnlandspósts.
Heimild:YLE