Home / Fréttir / Finnar kynna ís-gámaskip fyrir Norðurleiðina

Finnar kynna ís-gámaskip fyrir Norðurleiðina

Teikning af ís-gámaskipinu frá Aker Arctic
Teikning af ís-gámaskipinu frá Aker Arctic

Frá því að 224.000 lesta gámaskipið Ever Given strandaði í Súez-skurði þriðjudaginn 23. mars hafa hundruð skipa safnast saman við norðurenda skurðarins í Miðjarðarhafi og suðurendann í Rauðahafi. Sigli skip suður fyrir Afríku í stað þess að fara um skipaskurðinn lengjast ferðir þeirra að minnsta kosti um tvær vikur og flutningskostnaður stóreykst.

Finnskir skipahönnuðir hjá Aker Arctic hefðu tæplega getið fundið betri tíma en einmitt nú til að kynna nýjustu afurð rannsókna sinna og hönnunarvinnu: gámaskip sem hefur burði til að brjótast í gegnum ísilagt Norður-Íshafið.

Norðurleiðin, siglingaleiðin í Norður-Íshafi fyrir norðan Rússland,  er um 40% styttri sé ferðinni heitið frá Kína til hafna í miðhluta Evrópu en ef farið er um Súez-skurð.

Fari skip Norðurleiðina hefur til þessa bæst við kostnaður vegna ísbrjóta. Þá eru mjög fá gámaskip smíðuð til þess að brjótast í gegnum ís.

Aker Artec í Helsinki er í fremstu röð þeirra sem hanna skip til siglinga í ís og til þess að brjóta ís.

Luigi Portunato, skipahönnuður hjá Aker Arctic, segir að hvergi sé að finna gámaskip sem geti brotist í gegnum ís. Nú hefur hann og samstarfsmenn hans hins vegar kynnt skip sem getur flutt 8.000 tuttugu feta gáma (TEU) og siglt Norðurleiðina allan ársins hring.

Fyrir utan að skrokkur skipsins er styrktur til íssiglinga og búnaður hannaður til ferða í miklum kulda má snúa skipinu og nota skut þess til að brjóta þykkari ís en kinnungar þess þola. Á íslausu hafi er  300 m löngu skipinu siglt eins og öllum öðrum skipum með stefnið fram. Markmið hönnuðanna er að ekki þurfi aðstoð frá ísbrjótum til að sigla skipinu Norðurleiðina.

Luigi Protunato segir að skipið líkist mest gasflutningaskipinu Christophe de Margerie og systurskipum þess en þau flyja kælt, fljótandi jarðgas (LNG) frá Jamal-skaga í Síberíu til markaða í Austur-Asíu og Evrópu.

Christophe de Margerie varð fyrir skömmu fyrst flutningaskipa til að brjótast í gegnum þykkan ís á Norðurleiðinni í febrúar. Þá var skipinu siglt frá Jiangsu í Kína til Sabetta á Jamal-skaga.

Í september 2018 var litlu gámaskipi frá Maersk siglt um Norðurleiðina í tilraunaskyni. Þá var aðeins rekís á hluta leiðarinnar þannig ekkert reyndi á skipið eða stjórnendur þess miðað við aðstæður að vetrarlagi.

 

Heimil: Barents Observer.

 

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …