Home / Fréttir / Finnar íhuga járnbraut til Kirkenes

Finnar íhuga járnbraut til Kirkenes

 

Höfnin í Kirkenes í Noregi.
Höfnin í Kirkenes í Noregi.

Finnskt fyrirtæki sagði fimmtudaginn 9. maí að það hefði áform um að leggja járnbraut milli norðurhluta Finnlands og hafnarbæjarins Kirkenes í Noregi til að tengjast siglingaleiðinni fyrir norðan Rússland, Norðurleiðinni, kostnaður við brautina er talinn vera 3 til 5 milljarðar evra.

Þetta er finnska fyrirtækið Finest Bay Area Development og segir Kustaa Valtonen forstjóri þess að hann hafi ritað undir samkomulag við félagið Sør-Varanger Utvikling í Noregi um að kanna hvernig best verði staðið að því að leggja járnbraut á þessum slóðum og hver yrðu áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið, mannlíf og efnahag.

Finest Bay Area Development hefur einnig áform um að gera neðansjávargöng milli Helsinki, höfuðborgar Finnlands, og Tallinn, höfuðborgar Eistlands.

Kirkenes er fyrir norðan heimskautsbaug, um 350 km frá nyrsta hluta járnbrautanets Finnlands. Brautin kynni að verða lögð norður frá Kemijarvi eða Kolari í Finnlandi.

Finnska ríkisstjórnin birti í fyrra skýrslu þar sem sagði að það mundi taka að minnsta kosti 15 ár að leggja járnbraut til Kirkenes og hún mundi ekki standa undir sér.

„Við væntum þess að flutningar aukist umtalsvert milli Evrópu og Asíu. Það var ekki tekið nógu vel á þeim málum í skýrslunni,“ sagði Valtonen við Reuters-fréttastofuna.

Áform Finest Bay Area Development um að grafa 100 km löng göng milli Helsinki og Tallinn fengu í mars 2019 loforð um 15 milljarða evru fyrirgreiðslu frá Touchstone Capital Partners í Kína.

Heimild: Reuters.

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …