Home / Fréttir / Finnar gera varnarsamning við Bandaríkjastjórn

Finnar gera varnarsamning við Bandaríkjastjórn

Antti Häkkänen varnarmálarðherra og Elina Valtonen utanríkisráðherra kynna varnarsamninginn 14. desember 2023.

Finnska ríkisstjórnin birti 14. desember 2023 meginatriði varnarsamnings sem hún hefur gert við Bandaríkjastjórn. Með honum heimila Finnar Bandaríkjaher afnot af 15 herstöðvum og veita leyfi til að hergögn og birgðir séu geymdar á finnsku landi.

Ætlunin er að fulltrúar Bandaríkjanna og Finnlands riti undir samninginn í Washington mánudaginn 18. desember.

Finnski varnarmálaráðherra, Antti Häkkänen, sagði á blaðamannafundi fimmtudaginn 14. desember að samningurinn hefði gífurlega mikið gildi fyrir Finnland.

Finnska ríkisstjórnin hefur lagt til við Sauli Niinistö Finnlandsforseta að hann veiti varnarmálaráðherranum eða utanríkisráðherranum, Elinu Valrtonen, umboð til að rita undir samninginn.

„Varnarsamningurinn sem við ætlum að undirrita dýpkar enn frekar tvíhliða bandalagið milli Finnlands og Bandaríkjanna. Hann styrkir öryggi og varnir Finnlands og stuðlar að samstarfi á öllum sviðum öryggismála. Samningurinn hefur einnig mikilvægt svæðisbundið gildi og auðveldar Finnum að leggja sitt af mörkum til sameiginlegra varna undir merkjum NATO,“ segir Valtonen í fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar.

Í tilkynningunni segir að varnir Finnlands styrkist með samningnum vegna þess að í krafti hans sé unnt að taka á móti bandarískum herafla í Finnlandi og æfa með honum auk þess sem þar sé heimilað að geyma vopn og vistir á vegum Bandaríkjahers.

Häkkänen staðfesti að samningurinn hróflaði ekki við finnskri löggjöf sem bannar geymslu og flutning kjarnavopna á finnsku landi.

Hann áréttaði einnig að ekki hefði verið unnt að gera þennan samning nema vegna þess hve Finnar hefðu átt nána samvinnu við Bandaríkjamenn um varnarmál frá því á tíunda áratugnum. Undirritun samningsins væri skref til enn nánara varnarsamstarfs. Í samningnum birtist staðfesting á vilja Bandaríkjamanna til að leggja sitt af mörkum í þágu öryggis Finnlands. „Finnar standa ekki einir að vörnum sínum heldur gera það sem aðilar að NATO og með Bandaríkjamönnum,“ segir Häkkänen í tilkynningu.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …