Nokkur aðildarríki NATO og ESB hafa áform um að koma á fót rannsóknarsetri í Helsinki til að kanna leiðir til að bregðast við blendings (hybrid) hernaði sagði embættismaður finnsku ríkisstjórnarinnar við Reuters-fréttastofuna mánudaginn 21. nóvember.
Sameiginleg landamæri Finna og Rússa eru um 1.300 km löng en Rússar hafa verið sakaðir um að beita blendings-hernaði í Úkraínu-deilunni. Þeir tengja þá saman venjulegan herbúnað og tölvuárásir, áróður og aðrar óbeinar aðferðir.
Finnar sem standa utan NATO en eru í ESB lýstu í október yfir áhyggjum vegna þess að rússnesk stjórnvöld hefðu magnað upp áróðursstríð í Finnlandi.
Jori Arvonen, aðstoðar-utanríkisráðherra, sagði fréttamönnum að Finnar hefðu rætt um áform sín um öndvegissetur gegn blendings-hernaði við Bandaríkjamenn, Breta, Þjóðverja, Frakka, Ítali, Spánverja, Pólverja, Svía og fulltrúa Eystrasaltsríkjanna fyrir utan embættismenn ESB og NATO.
„Fulltrúar allra þessara aðila hafa lýst miklum stuðningi við slíkt setur. Nokkrir eiga enn eftir að staðfesta þátttöku, stuðningurinn er hins vegar nægur til að við höldum áfram,“ sagði hann.
Arvonen sagði að árásirnar gætu verið „diplómatískar, hernaðarlegaer, tæknilegar og fjárhagslegar“. Hann sagði að til dæmis hefði verið mikið um það rætt í Finnlandi að Rússar reyndu að hafa áhrif á fréttaflutning.
Hann benti á að Daesh (Ríki íslams) væri annar aðili sem notaði blendings-aðferðir. Hryðjuverkamennirnir hefðu notað lygafréttir til að ýta undir öfgahyggju meðal fólks í Evrópu.
„Markmið setursins er að efla mótstöðuafl viðkomandi aðila og búa þá undir blendings-ógnir með þjálfun, rannsóknum og kynningu á bestu starfsaðferðum,“ sagði Arvonen.
Þjóðverjar lýstu á dögunum yfir áhyggjum af því að Rússar kynnu að reyna að hafa afskipti af þingkosningum þeirra á næsta ári. Í forsetakosningunum í Bandaríkjunum ræddu menn um leynilega íhlutun Rússa.