
Jussi Niinistö, varnarmálaráðherra Finna, segir að ný sænsk skýrsla um öryggismál Svía kalli ekki á neina endurskoðun á varnarsamstarfi Finna og Svía. Sagt hefur verið frá skýrslunni hér á síðunni en hún var birt opinberlega föstudaginn 9. september. Í frétt finnska ríkisútvarpsins, YLE, segir að í skýrslunni komi fram að varnarsamstarfið við Finna kunni að kalla á hættu fyrir Svía.
Krister Bringéus, gamalreyndur sænskur sendiherra, samdi skýrsluna. Hann segir að varnarsamstarfið við Finna hafi ýmsar hættur í för með sér, til dæmis að varnarstefna Svía nái allt austur að landamærum Rússlands.
Jussi Niinistö minntist á skýrsluna í ræðu sem hann flutti mánudaginn 12. september. Þar sagði hann:
„Hér er um að ræða skoðun eins sendiherra, að vísu með mikla reynslu, á stöðu mála. Það er gott að Finnar skilji einnig að Svíar hugsa á þennan hátt, þrátt fyrir það má líkja varnarsamstarfi Finna og Svía við eimreið á ferð.“
YLE minnir á að Bringéus hafi um tíma verið formaður sendinefndar Finna hjá Öryggissamvinnustofnun Evrópu (ÖSE). Hann leggi í skýrslu sinni áherslu á að það sé sjálfstæð ákvörðun Svía hvort þeir gangi í NATO. Niinistö hafi sagt að hann ætti ekki von á neinum óvæntum ákvörðunum Svía varðandi NATO. Ráðherrann sagði:
„Finnar og Svíar skiptast stöðugt á upplýsingum. Það verða ekki endurtekin sömu mistök nú og urðu í upphafi tíunda áratugarins í tengslum við umsókn um aðild að ESB. Tengslin eru mun nánari nú en þá og um þetta mál hefur verið rætt. Það er alls ekki íþyngjandi fyrir tengslin milli Finna og Svía.“
Ráðherrann sagði að þrátt fyrir nána samvinnu við Svía treystu Finnar ekki á þá til að verja land sitt:
„Við treystum ekki á aðstoð neins; þvert á móti búum við okkur undir að verjast einir. Við munum hins vegar gera ráðstafanir til að geta notið aðstoðar sé hún í boði. Hvort sem við erum í bandalagi eða ekki verður okkur veitt aðstoð þjóni það hagsmunum þess sem veitir hana.“
Jarmo Lindberg, yfirmaður finnska hersins, sagði mánudaginn 12. febrúar að Finnar hefðu gert mjög nákvæmar áætlanir um samstarf við sænska herinn á komandi árum. Hann minnti á að samvinnan hafi aukist undanfarin ár:
„Við höfum tekið þátt í nokkrum æfingum nýlega. Við áttum aðild að helstu heræfingum Svía á Gotlandi með orrustuþotum og bráðlega munu Gripens [sænskar orrustuþotur] koma til Finnlands. Hér er um að ræða skref fyrir skref sem sýna að við höfum stofnað til markvissrar, djúprar og nýrrar samvinnu við Svía.“
Hann sagðist ekki taka undir með höfundi sænsku skýrslunnar þegar hann segði að öll Eystrasaltsríki yrðu óhjákvæmilega aðilar að átökum hæfust þau á Eystrasaltssvæðinu. Allt gæti vissulega gerst á tiltölulega litlu hafsvæði en hvort það leiddi sjálfkrafa til þátttöku allra þjóða á svæðinu mundi ráðast af ástandinu, sagði Lindberg.
Heimild: YLE