Home / Fréttir / Fimmtíu þjóðaröryggisráðgjafar úr hópi repúblíkana segja Donald Trump óhæfan til að verða forseti

Fimmtíu þjóðaröryggisráðgjafar úr hópi repúblíkana segja Donald Trump óhæfan til að verða forseti

 

Donald Trump
Donald Trump

Fimmtíu úr hópi helstu sérfræðinga repúblíkana um þjóðaröryggismál, þar af margir sem voru meðal aðalráðgjafa George W. Bush Bandaríkjaforseta hafa skrifað undir bréf þar sem segir að Donald Trump, forsetaframbjóðanda repúblíkana, „skorti skapgerð, gildismat og reynslu“ til að verða forseti og hann „mundi kalla hættu yfir öryggi þjóðar okkar og velferð“. Þeir telja jafnframt að Trump yrði „ófyrirleitnasti forsetinn í sögu Bandaríkjanna“.

Bréfritarar segja að Trump mundi veikja siðferðilegan áhrifamátt Bandaríkjanna og þeir velta fyrir sér þekkingu hans og hollustu við stjórnarskrána. Þeir segja að hann hafi „hvað eftir annað sýnt lítinn skilning á brýnustu þjóðarhagsmunum, flóknum viðfangsefnum á sviði utanríkismála, lífsnauðsynlegum bandalögum og lýðræðislegum gildum“ sem eigi að leggja grunn að stefnu Bandaríkjanna. Þeir harma að Trump „hafi ekki sýnt neinn vilja til að auka þekkingu sína“.

Þá segir í bréfinu að enginn höfunda þess muni kjósa Trump auk þess er áréttað að margir Bandaríkjamenn hafi efasemdir um Hillary Clinton og það eigi einnig við um marga bréfritaranna.

Í The New York Times (NYT) segir þriðjudaginn 9. ágúst að þótt áhrifamenn í utanríkismálum úr báðum bandarísku stjórnmálaflokkunum deili oft innbyrðis – á bakvið luktar dyr eða kurteislega á síðum tímaritsins Foreign Affairs – sé það einstaklega sjaldgæft að þeir stigi fram á opinberan vettvang á svo áberandi hátt og af svo miklum þunga. Nokkrir minni spámenn úr þessum hópi hafi sent frá sér svipað bréf með mildara orðalagi í mars. Mánudaginn 8. ágúst hafi hins vegar margir viðurkenndir áhrifamenn og fyrrverandi embættismenn sem hafi haldið sér til hlés opinberlega látið í sér heyra annars staðar en yfir kvöldverði eða á fundi útvaldra úr röðum repúblíkana.

Trump svaraði fyrir sig síðdegis mánudaginn 8. ágúst. Í yfirlýsingu sagði hann að bréfritarar væru mennirnir sem „bandaríska þjóðin ætti að spyrja hvers vegna allt væri á öðrum endanum í heiminum, við þökkum þeim fyrir að stíga fram svo að allir í landinu viti hverjir eigi skilið að fá skammir fyrir að gera heiminn að svona hættulegum stað“. Hann sagði þá „ekkert annað en hluta misheppnuðu Washington-elítunnar sem vill halda í völd sín“.

Trump benti réttilega á að margir bréfritara væru arkitektar innrásarinnar í Írak og eftirleiks hennar. Hann sakaði þá þó einnig um að leyfa Bandaríkjamönnum að „deyja í Benghazi“ og fyrir að leyfa „uppgang Ríkis íslams“. Með þessum orðum vísaði hann til árásar árið 2012 á bandaríska ræðisskrifstofu í Líbíu og sóknar hryðjuverkasamtakanna Daesh, hvoru tveggja varð í forsetatíð Baracks Obama. Á þeim tíma hafa flestir sérfræðingar repúblíkana á sviði utanríkis- og öryggismála starfað hjá hugveitum, ráðgjafastofum eða lögfræðiskrifstofum auk þess að veita keppinautum Trumps í prófkjöri repúblíkana ráð.

Í bréfinu segir:

„Hann getur ekki eða vill ekki gert mun á þvi sem er satt eða falskt. Hann ýtir ekki undir ólíkar skoðanir. Hann skortir sjálfstjórn og stjórnast af hvatvísi. Hann þolir ekki persónulega gagnrýni. Hann hefur skapað ótta meðal nánustu bandamanna okkar með einkennilegri framkomu sinni. Allt eru þetta hættuleg skapgerðareinkenni hjá einstaklingi sem stefnir að því að verða forseti og æðsti yfirmaður heraflans með yfirstjórn bandaríska kjarnorkuheraflans.“

Í svari sínu sagði Trump að skoðun sín væri „ekki mótuð af ráðandi fjölskylduveldi. Þetta er skoðun um að Bandaríkin skuli skipa fyrsta sæti, rísa gegn erlendum einræðisherrum í stað þess að taka við fé frá þeim, vill frið frekar en stríð, endurreisir her okkar og lætur aðrar þjóðar greiða sanngjarnan hluta af kostnaði við að verja þær.“

 

Heimild: NYT

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …