
Maður sem á sínum tíma var grunaður um að vera sovéskur njósnari segist hafa setið fundinn sem Donald Trump jr. átti með rússneskum lögfræðingi. Sumir segja að tilgangur fundarins hafi verið að bjóða fram krafta Kremlverja til stuðnings föður Trumps yngri í kosningabaráttunni.
Rússnesk-bandaríski hagsmunamiðlarinn Rinat Akhmetshin sagði AP-fréttastofunni föstudaginn 14. júlí að hann hefði setið fundinn í júní 2016 þegar Donald Trump j. var lofað upplýsingum um Hillary Clinton.
Hann sagði að fundurinn hefði ekki „snúist um neitt“ og hann hefði „reyndar búist við alvarlegri“ umræðum. „Satt að segja datt mér aldrei í hug að þetta yrði slíkt stórmál,“ sagði hann við AP.
Í tölvubréfum sem Trump jr. birti í vikunni sýna að fundinn sátu Paul Manafort, kosningastjóri Donalds Trumps, Jared Kushner, tengdasonur Trumps, og rússneski lögfræðingurinn Natalia Veselnitskaja.
Akmetshin – sem neitar að hafa tengsl við rússneskar njósnastofnanir – segir að á fundinum hafi Trump jr. beðið Veselnitskaju um sannanir fyrir að ólöglegar greiðslur hafi runnið til flokksstjórnar demókrata. Hann hefði misst áhuga á samtalinu þegar Veselnitskaja svaraði á þann veg að hún hefði ekki neinar slíkar upplýsingar.
„Þeir gátu ekki beðið eftir að fundinum lyki,“ er haft eftir honum.
Fundurinn vekur enn spurningar um hvort samráð hafi verið milli kosningastjórnar Trumps og rússneskra stjórnvalda í kosningabaráttunni. Ýmsir eru að rannsaka grunsemdir um leynimakk af þessu tagi, ekki síst alríkislögreglan FBI.
Akhmetshin sagði að Veselnitskaja hefði tekið með sér plastmöppu með útprentuðum skjölum, hann vissi ekki hvað í þeim stóð eða hvort þau hefðu komið frá rússnesku ríkisstjórninni. Hann sagði einnig óljóst í sínum huga hvort hún hefði skilið skjölin eftir hjá samstarfsmönnum Trumps.
Akhmetshin sagði að sérstakur saksóknari hefði ekki haft samband við sig frekar en FBI til að spyrja um fundinn með Trump jr. Hann hefði ekkert á móti að ræða við rannsóknarmenn „Ég tel mig hafa lögmætan rétt til að segja sögu mína,“ sagði hann.
Rússnesk stjórnvöld hafna allri aðild eða vitneskju um júní-fundinn. Þegar Dmitríj Peskov. talsmaður Vladimirs Pútins Rússlandsforseta, var, föstudaginn 14. júlí, spurður um Akhmetshin sagði hann: „Við vitum ekkert um þann mann.“
Þegar Trump jr. sagði frá því fyrr í vikunni að hann hefði hitt Veselnitskaju í júní 2016 þrátt fyrir að áður hefði verið fullyrt að hvorki hann né aðrir úr kosningaliði Trumps hefðu ekki hitt neina Rússa í kosningabaráttu hans. Trump jr. lét þess ekki getið að Akhmetshin hefði verið á fundinum.
Veselnitskaja sagði NBC-sjónvarpsstöðinni að einn maður hefði komið með sér á fundinn en hún vildi ekki segja hver hann var.
Seinna sagði hún við NBC að hún hefði ekki haft neinar neikvæðar upplýsingar um Clinton, hún hefði beðið um fundinn til að ræða um Magnitskíj-lögin sem heimila Bandaríkjaforseta að neita einstaklingum um vegabréfsáritanir og frysta eignir sérgreindra Rússa.