Home / Fréttir / Fillon sigurstranglegur í forsetaprófkjöri franskra mið-hægrimanna

Fillon sigurstranglegur í forsetaprófkjöri franskra mið-hægrimanna

François Fillon
François Fillon

 

Síðari umferð prófkjörs mið-hægri manna um forsetaframbjóðanda vorið 2017 er sunnudaginn 27. nóvember. Þar keppa tveir fyrrverandi forsætisráðherrar,  François Fillon og Alain Juppé. Allt bendir til þess að sigurvegarinn verði næsti Frakklandsforseti.

Fillon boðar róttækar umbætur í frönskum efnahags- og atvinnumálum í anda Margaret Thatcher. Hann segir jafnrframt að í Frakklandi verði ekki fjölmenningarsamfélag.

Allt þykir hníga að sigri Fillons sem er 62 ára og var forsætisráðherra þegar Nicolas Sarkozy var forseti. Stórsigur Fillons í fyrri umferð prófkjörsins stangaðist algjörlega á við skoðanakannanir og spár álitsgjafa.

Á loka-fjöldafundi sínum í París föstudaginn 25. nóvember gerði hann grín að gagnrýnendum sínum, þeir hefðu komist úr jafnvægi vegna sigurs „hægrisinnaðs frambjóðanda sem naut stuðnings hægrimanna“ sem hefðu lengi verið útmálaðir sem dæmigerðir „afturhaldssinnar sem lifðu í söknuðu eftir mygluðu Frakklandi“.

Fillon hefur hafnað fjölmenningarstefnu og vill að Frakkar leggi rækt við þjóðlegan arf sinn til að sameina alla þjóðina. Hann er trúrækinn kaþólikki en segir að múslimar séu sama sinnis og allir aðrir á undan þeim að öfgahyggja og ögranir eigi ekkert erindi við Frakka.

Fillon telur að Bandaríkjastjórn og Evrópusambandið hafi gengið of hart fram gagnvart Vladimír Pútín Rússlandsforseta og stjórn hans. Í kappræðum þeirra Fillons og Juppés sagði sá síðarnefndi: „Þetta hljóta að vera fyrstu forsetakosningarnar þar sem Rússlandsforseti velur sér frambjóðanda.“

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …