Home / Fréttir / Fillon dregur sig ekki í hlé – Macron hafnar sögusögnum um samkynhneigð – SPD með meira fylgi en CDU/CSU

Fillon dregur sig ekki í hlé – Macron hafnar sögusögnum um samkynhneigð – SPD með meira fylgi en CDU/CSU

Brigitte Trogneux með eiginmanni sínum Emmanuel Macron.
Brigitte Trogneux með eiginmanni sínum Emmanuel Macron.

Hér var látið að því liggja á dögunum að François Fillon yrði ekki forsetaframbjóðandi franska Lýðveldisflokksins. Hann mundi neyðast til að draga sig í hlé vegna ásakana um misnotkun opinbers fjár í eigin þágu og konu sinnar.

Mánudaginn 6. febrúar efndi Fillon til blaðamannafundar þar sem hann snerist til varnar gegn árásum á sig. Sagðist hann hafa þurft viku til að átta sig á þeim ósköpum sem á sér og fjölskyldu sinni hefðu dunið.

Hann hefði ekki brotið nein lög en greinilegt væri að nú sætti almenningur sig ekki við að menn hefðu farið að lögum sem hefðu fyrr á árum verið talin eðlileg. Baðst hann afsökunar á að hafa nýtt sér þessar heimildir og í ljósi þess sem nú væri sagt hefði það verið rangt.

Fillon sagði Penelope, eiginkonu sína, hafa verið sér til samstarfs og tekið á sig margar skyldur innan marka laganna sem giltu um greiðslur af því tagi sem um væri að ræða. Þá sagði hann:

„Ekkert mun beina athygli minni frá raunverulegum viðfangsefnum forsetakosninganna. Milljónir manna völdu mig sem frambjóðanda, ég er ekki flokksframbjóðandi –  ég er frambjóðandi til forsetaembættisins og  frambjóðandi sem ætlar að sigra.“

Í breska blaðinu The Times segir að starfsmenn franskra fjölmiðla og samfélagsmiðla leggi sig fram um að finna leiðir til að greina og bregðast við gervifréttum í tengslum við forsetakosningarnar 23. apríl. Meiri áhersla hafi verið lögð á þetta en áður eftir að ráðist var á sjálfstæða forsetaframbjóðandann Emmanuel Macron nýlega á rússnesku ríkisvefsíðunni Sputnik.

Þar var vitnað í franskan þingmann, vinveittan Rússum, sem lýsir Macron sem útsendara bandarískra bankajöfra auk þess sem ýjað er að því að Macron sé samkynhneigður.

Eiginkona Macrons frá árinu 2007 er Brigitte Trogneux, fyrrverandi frönskukennari hans, 24 árum eldri en 39 ára gamall frambjóðandinn.

Emmanuel Macron olli nokkru uppnámi á fundi stuðningsmanna sinna í París að kvöldi mánudags 6. febrúar þegar hann birtist þar öllum að óvörum og flutti ræðu í klukkutíma þar sem hann hafnaði öllum sögusögnum um leynilegt samband sitt við Mathieu Gallet útvarpsstjóra Radio France.

Sputnik birti mánudaginn 6. febrúar viðtal við Nicolas Dhuicq, þingmann úr Lýðveldisflokki Fillons, sem sagði: „Ýmislegt skýrist varðandi einkalíf hans [Macrons]. Hann nýtur stuðnings auðmanna úr hópi samkynhneigðra.“

François Fillon hefur talað mildilega um Vladimír Pútín og Marine Le Pen, forsetaframbjóðandi Þjóðfylkingarinnar, er enn mildari í garð Rússlandsforseta. Þetta hefur meðal annars vakið ótta manna um að rússnesk stjórnvöld blandi sér í frönsku kosningabaráttuna með upplýsingafölsunum og gervifréttum í þágu þeirra sem þau telja sér hliðholla.

Saksóknari í París tilkynnti þriðjudaginn 7. febrúar að Nicolas Sarkozy, fyrrv. forseti Frakklands, yrði látinn sæta ákæru fyrir að hafa brotið lög um greiðslu forseti Frakklands, yrði látinn sæta ákæru fyrir að hafa brotið lög um greiðslu kostnaðar vegna kosninga árið 2012 þegar hann sóttist eftir endurkjöri sem forseti.

Ákæruvaldið telur að Sarkozy hafi „gróflega“ brotið gegn ákvæði um 22,5 m. evru kostnaðarþak á útgjöld vegna kosninga með því að nýta gervireikninga frá almannatengslafyrirtækinu Bygmalion.

Tilkynnt var að 13 manns að auki yrðu ákærðir vegna málsins.

Thierry Herzog, lögfræðingur Sarkozys, sagði ákvörðun saksóknarans „arfavitlausa“ og henni yrði áfrýjað.

Verði Sarkozy (62 ára) sakfelldur kynni hann að hljóta allt að eins árs dóm.

Þýskaland

Þýska blaðið Bild birti mánudaginn 6. janúar niðurstöður könnunar sem sýndu, í fyrsta sinn í mörg ár, að jafnaðarmenn (SPD) nytu meiri stuðnings kjósenda en kristilega flokkasamsteypan (CDU/CSU).

SPD fengi 31% atkvæða en CDU/CSU 30%. Alternative für Deutschland (AfD) fengi 12%, Die Linke 10%, Græningjar 7% og frjálslyndir (FDP) 6%.

Jafnaðarmenn hafa ekki notið meiri stuðnings en kristilegir síðan árið 2010. Kosið verður til þýska sambandsþingsins 24. september 2017.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …