
Í breska blaðinu The Guardian birtist mánudaginn 3. ágúst grein þar sem tekið er saman yfirlit yfir atvik í Evrópu og Asíu þar sem herþotur eru sendar í veg fyrir ókunnar flugvélar. Telja höfundar greinarinnar að mikil fjölgun þessara atvika sýni aukna geópólitíska spennu í Evrópu og Asíu.
Flugvélar frá NATO-ríkjum voru sendar í veg fyrir ókunnar flugvélar oftar en 500 sinnum yfir Evrópu á árinu 2014 – fjölgaði þessum atvikum fjórfalt miðað við árið 2013. Í tæplega 85% tilvika var flogið í veg fyrir rússneskar vélar. Af því sem er þessu ári eru þessi atvik orðin rúmlega 300.
Rússar segja að ferðir flugvéla frá NATO-ríkjum hafi nærri tvöfaldast við landamæri sín á síðasta ári. Af hálfu NATO er bent á að þessi fullyrðing Rússa sé „viljandi óljóst orðuð“.
Þegar rætt er um atvik af þessu tagi er ekki um að ræða brot á reglum um lofthelgi eða flug hervéla. Í flestum tilvikum er ekki um nein brot að ræða. Á síðasta ári gerðist það hins vegar 10 sinnum að rússneskar flugvélar rufu lofthelgi NATO-ríkja. Átta sinnum gerðist það yfir eyjum sem tilheyra Eistlandi (þar af sex yfir afskekktu eyjunni Vaindloo). Flogið var inn í norska lofthelgi í mars og portúgalska í apríl, í báðum tilvikum aðeins í nokkrar sekúndur.
Á árinu 2015 hefur ókunnri vél ekki verið flogið inn í lofthelgi neins NATO-ríkis (þau eru 28). Finnland er ekki í NATO en rússnesk flugvél rauf lofthelgi þess í stutta stund 26. júní 2015. Svíþjóð er ekki heldur í NATO. Sænski herinn hefur sagt að á þessu ári hafi lofthelgi landsins verið rofin níu sinnum. Þetta gerðist 12 sinnum árið 2014.
Tölurnar sýna að umsvif rússneska flughersins hafa aukist mikið. Til samanburðar má til dæmis nefna að á árunum 2006 til 2013 rufu Rússar lofthelgi Eistlands aðeins sjö sinnum.
Þá hafa Rússar einnig í einstökum tilvikum beitt hervélum sínum á ögrandi hátt. Má þar nefna nokkur lágflug yfir herskip og óvenjulegar ferðir rússneskra sprengjuvéla í nágrenni Bandaríkjanna, Portúgals og Bretlands.