Home / Fréttir / Ferðagleði umhverfisstjóra SÞ að falli

Ferðagleði umhverfisstjóra SÞ að falli

Erik Solheim
Erik Solheim

Norðmaðurinn Erik Solheim, forstjóri Umhverfismálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) sagði af sér þriðjudaginn 20. nóvember eftir að upplýst var að hann hefði varið hálfri milljón dollara í flugferðir um heiminn á 22 mánuðum.

Innri endurskoðun SÞ birti skýrslu um UNEP þriðjudaginn 20. nóvember þar sem skýrt var frá ferðagleði Solheims. Hann virðist hafa farið á svig við reglur SÞ við uppgjör ferðakostnaðar. Þetta veldur því að ýmis ríki halda að sér höndum við fjárframlög til UNEP.

Sjálfur gefur Erik Solheim sterklega til kynna að efnt hafi verið til samblásturs gegn sér innan SÞ. Hann segir að skýrslu innri endurskoðunarinnar beri að skoða í því ljósi að hann hafi verið í forystu þeirra sem unnu að umbótum innan SÞ. Þeir sem vildu þær ekki notuðu skýrslugerðina til að ná sér niðri á honum segir Solheim við norska blaðið Dagens Næringsliv.

Vitnað er til ummæla Solheims við afsögn sína þess efnis að hann sé sammála António Guterres, aðalframkvæmdastjóra SÞ, að það sé auðveldara fyrir stofnunina að takast á við efni skýrslunnar segi hann af sér. Segir The Guardian að Guterres hafi beðið Solheim að segja af sér þar sem annars kynni að verða hættuástand innan UNEP. Svíar, Danir og Hollendingar eru meðal þjóða sem tilkynntu að þær mundu ekki leggja fé til umhverfisáætlana UNEP á meðan deilur ríktu vegna framgöngu Solheims.

Árin 1987 til 1997 var Erik Solheim formaður Sósíalíska vinstriflokksins (SV) í Noregi. Hann varð ráðherra alþjóðaviðskipta árið 2005 og einnig umhverfisráðherra 2007, gegndi hann báðum embættum til 2012. Árið 2016 varð hann forstjóri UNEP.

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …