Höfundur:
Kristinn Valdimarsson
Út er komin bókin Fear eftir bandaríska blaðamanninn Bob Woodward (bandarískur útgefandi er Simon & Schuster.) Fjallar bókin um fyrstu misserin, u.þ.b. fimmtán mánuði, í forsetatíð Donalds Trumps Bandaríkjaforseta.
Woodward er goðsögn meðal rannsóknarblaðamanna en á 8. áratug síðustu aldar áttu hann og Carl Bernstein, en þeir voru þá báðir blaðamenn á The Washington Post, þátt í því að koma upp um Watergatehneykslið sem leiddi til þess að Nixon sagði af sér embætti forseta Bandaríkjanna. Þeir sem bjuggust við því að Fear myndi draga annað eins hneyksli fram í dagsljósið verða fyrir vonbrigðum því í bókinni eru ekki færðar sönnur á að Trump sé sekur um glæp, eða glæpi. Woodward lætur öðrum eftir að skera úr um það. Bókin er heldur ekki greining á hinni ótrúlegu atburðarás sem leiddi til þess að Trump stóð uppi sem forseti Bandaríkjanna. Þannig er ekki farið yfir af hverju hann bauð sig fram og kosningabaráttuna. Bókinni má frekar líkja við viðtalsbók þar sem rakin eru samskipti Trumps við undirmenn sína, og aðra, í nokkrum málum s.s. deilu um viðskiptastefnu stjórnarinnar, deilum um Kóreuskagan og í Rússamálinu þ.e. rannsókn Roberts Muellers sérstaks saksóknara á hugsanlegum afskiptum Rússa af forsetakosningunum árið 2016. Þeir sem lesa bókina öðlast bæði þekkingu á atburðum sem almenningur vissi ekki um en einnig fá þeir innsýn í stjórnunarhætti og starfsumhverfið í Hvíta húsinu um þessar mundir.
Meðal þess sem bókin dregur fram í dagsljósið er að Rússar hafi hótað að beita kjarnorkuvopnum brytist út styrjöld í Eystrasaltsríkjunum. Kjarnavopn voru einnig til umræðu í öðru máli en fyrir nokkrum mánuðum munaði litlu að styrjöld hæfist á Kóreuskaganum vegna deilna Kims Jong-Uns einræðisherra Norður – Kóreu og Trumps. Forsetinn hefur líka átt í deilum við starfslið sitt um tollamál. Þannig réð hann sem efnahagsráðgjafa sinn hagfræðing sem er fylgjandi verndartollum. Sú skoðun er hins vegar andstæð viðhorfum 99,999% hagfræðinga sé vísað í bókina. Deilur Tumps við starfslið sitt hafa leitt til þess að starfsmenn Hvíta hússins stela stundum plöggum af skrifborði forsetans í þeirri von að geta komið í veg fyrir að hann taki ákvörðun sem er slæm fyrir Bandaríkin (og heiminn allan) Bókin kynnir líka til sögunnar Robert Porter, skjalastjóra forsetaskrifstofunnar (e. Staff Secretary) sem hafi verið einn af lykilmönnunum þar þangað til hann sagði af sér vegna ásakana um heimilisofbeldi.
Woodward talar nokkrum sinnum vel um Trump í bókinni. Þannig virðist nokkur hlýja ríkja milli hans og forsetafrúarinnar Melania Trump og það mun hafa fengið mjög á hann þegar Sýrlandsstjórn beitti efnavopnum gegn eigin borgurum. Í heildina séð er hins vegar sú mynd sem dregin er upp af Trump í bókinni ekki glæsileg. Trump virðist til að mynda vera afar sjálfhverfur nokkuð sem veldur því að hann á erfitt með að taka tillit til sjórnarmiða og þarfa annarra. Hann treystir því á eigin viðmið og gildi sem getur varla talist gott því siðferði hans virðist ekki upp á marga fiska. Þetta má m.a. ráða af því að hann mun vera óforbetranlegur lygari. Þetta er m.a. viðhorf lögfræðings hans sem telur að lygar Trumps muni koma honum í koll í Rússarannsókninni. Skapgerðarbrestir Trumps magna upp aðra galla í fari hans. Hann mun vera mjög óskipulagður og líður starfsemi Hvíta hússins mjög fyrir það. Ekki bætir úr skák að alvarlegar deilur eru á milli ýmissa þeirra sem vinna fyrir hann. Deilurnar stafa m.a. af því að sumir eru ósáttir við heimsmynd forsetans sem virðist vera afar gamaldags eða bókstaflega röng. Gott dæmi um það er skilningsleysi forsetans á þjónustudrifnum efnahag Bandaríkjanna og jákvæðu viðhorfi hans til verndartolla. Við þetta bætist að hann virðist ekki geta greint á milli (eigin) viðskiptasjónarmiða og stjórnmálahagsmuna Bandaríkjana. Trump sér Atlantshafsbandalagið t.d. aðallega sem samtök sem hafi haft Bandaríkin að féþúfu síðustu áratugina.
Bókin Fear er vel læsileg og fróðleg en ekki er hægt að neita því að hún líður aðeins fyrir það að svo mikið hefur verið fjallað um Trump að undanförnu, bæði í blaðagreinum og bókum, að þeir sem hafa fylgst vel með því kannast við ýmislegt af því sem kemur fram í bókinni. Síðustu daga hafa ýmsir stigið fram og sagt að Woodward greini ekki alltaf rétt frá atburðum og að sumt í bókinni sé beinlínis rangt. Erfitt er að leggja mat á hvort svo sé, sérstaklega þar sem höfundurinn vísar mikið í ónefnda heimildamenn í bókinni. Svo má ekki gleyma því að heimildamenn hans kunna að hafa hagsmuni af því að segja sína útgáfu af atburðum. Það er þó engin ástæða til að ætla að mikið sé af rangfærslum í bókinni sérstaklega þegar haft er í huga að margt af því sem þar kemur fram er í samræmi við það sem aðrir hafa sagt. Reyndar verður að gera ráð fyrir því að sumar tilvitnanirnar séu ekki hárréttar. Hafi lesendur þessa varnagla í huga ættu þeir að geta lært mikið um forsetatíð Trumps með því að lesa bókina Fear.