Home / Fréttir / Farsíma-njósnaforrit veldur uppnámi í Frakklandi

Farsíma-njósnaforrit veldur uppnámi í Frakklandi

Farsímar Emmanuels Macrons Frakklandsforseta og 15 ráðherra í frönsku ríkisstjórninni kunna að hafa verið meðal þeirra tækja sem ætlunin var að hlera árið 2019 með njósnabúnaði sem NSO Group, fyrirtæki staðsett í Ísrael, framleiddi.

Frá þessu segir í franska blaðinu Le Monde þriðjudaginn 20. júlí og einnig að saksóknari í París hafi boðað rannsókn á hve víðtæk notkun hafi verið að svonefndum Pegasus-njósnabúnaði til að fylgjast með blaðamönnum, mannréttinda-aðgerðasinnum og stjórnmálamönnum í fjölda landa.

Í blaðinu segir að símanúmer Macrons og þeirra sem sátu þá í ríkisstjórn hans hafi fundist meðal þúsunda númera á skrá þeirra sem keyptu þjónustu af NSO til eftirlits og njósna. Frönsku númerin voru á þeim hluta skrárinnar sem var ætlaður óþekktri öryggisþjónustu í Marokkó.

Le Monde er í hópi 16 fjölmiðla víða um heim sem hafa tekið höndum saman um að greina eigendur rúmlega 50.000 farsímanúmera. Listi með númerunum komst í hendur á rannsóknarblaðamannahópnum Forbidden Stories í París og mannréttindasamtökunum Amnesty International.

Fjölmiðlahópurinn segir að tekist hafi að tengja meira en 1.000 númer á listanum við einstaklinga, þeirra á meðal séu rúmlega 600 stjórnmálamenn og embættismenn og 189 blaðamenn. Franskir blaðamenn og stjórnmálamenn eru þar á meðal.

Fram hefur komið að einstaklingar í konungsfjölskyldum ríkjanna við Persaflóa, þjóðhöfðingjar og forsætisráðherrar væru á listanum.

Þegar leitað var eftir viðbrögðum franska forsetans við frétt Le Monde var fyrirspurninni ekki svarað. Í blaðinu er vitnað í talsmann NSO sem segir að viðskiptavinir fyrirtækisins hafi aldrei beitt hlerunarbúnaði gegn forsetanum.

NSO Group segist aldrei hafa átt „lista yfir hugsanleg, fyrrverandi og núverandi skotmörk“. Fyrirtækið segir frásögn Forbidden Stories „einkennast af röngum ályktunum og órökstuddum kenningum“.

Ekki hefur verið skýrt frá því hver lak upplýsingunum eða hvernig sannleiksgildi þeirra var staðfest. Að símanúmer sé í þessum gagnagrunni jafngildir ekki því að tilraun hafi verið gerð til að brjótast inn í viðkomandi síma. Fjölmiðlahópurinn segir hins vegar að gögnin gefi til kynna hverjir hafi verið hugsanleg fórnarlömb ríkisstjórna sem áttu viðskipti við NSO.

Fyrstu fréttir um víðtæka notkun Pegasus-njósnaforritsins bárust mánudaginn 19. júlí. Sagt er að með því megi brjótast inn í síma og nema efni sem lokað er með háþróuðum dulkóða – án þess að notandi símans verði nokkru sinni var við innbrotið. Notandi símans þarf ekki að sýna neina óvarkárni til dæmis við að hlaða niður einhverju viðhengi sem hann þekkir ekki. Pegasus finnur sér sjálfstæða leið inn í símtækið sem ætlunin er að hlera.

NSO segir að búnaðurinn sé aðeins notaður í lögmæltum tilgangi gegn glæpamönnum og hryðjuverkamönnum en sagt er að tæknina megi hæglega nota í öðrum tilgangi standi vilji yfirvalda sem hafa keypt hann til þess.

Forritið dugar gegn iOS-kerfi Apple, Android-stýrikerfum og Blackberry-símum. Eigendur tækja með þessum kerfum vita ekkert af innbrotinu. Þegar Pegasus hefur búið um sig í farsíma geta viðskiptavinir NSO tekið stjórn símans í sínar hendur, virkja myndavélina og hljóðnemann, séð staðsetningar og lesið efni skilaboða og bréfa þótt þau séu dulkóðuð á Telegram og WhatsApp.

Pegasus nýtir sér glufur í öryggiskerfum farsíma. Opinber athygli beindist að forritinu eftir að sádí blaðamaðurinn Jamal Khashoggi var myrtur árið 2016 og talið et að tengja megi það öðrum atvikum.

NSO segir forritið ekki hannað til fjölda-eftirlits heldur gegn hryðjuverkamönnum. Fyrirtækið var stofnað árið 2011 og segist aðeins selja búnað sinn til stjórnarstofnana og kannað sé hvort þær sæti ámæli fyrir mannréttindabrot áður en til viðskiptanna komi.

Fyrirtækið er á hinn bóginn sakað um að hafa aðstoðað ofríkisstjórnir. Stjórnvöld Azerbaijan og Sádi-Arabíu eru meðal viðskiptavina NSO. Einnig er sagt að stjórn Viktors Orbáns, forsætisráðherra Ungverjalands, noti forritið til eftirlits með blaðamönnum. Stjórnin hafnar því. Þá hafi ríkisstjórn Spánar notað það. Því er neitað í Madrid.

 

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …