Home / Fréttir / Farandfólk skapar vanda á Kanaríeyjum

Farandfólk skapar vanda á Kanaríeyjum

Frá búðunum fyrir farandfólk á Tenerife.

Á fréttasíðunni Euronews segir frá því föstudaginn 30. apríl að öryggis- og löggæsla hafi verið aukin í höfninni á Tenerife, einni af Kanaríeyjum, til að hindra að farandfólk laumist um borð í flutningaskip til meginlands Evrópu.

Rætt er við Juan Ignacio Llaño hjá skipafélaginu Fred Olsen Express sem er einn þeirra sem finnur oft þessa laumufarþega. Hann segir að fyrir sér og samstarfsmönnum sínum vaki að tryggja öryggi allra um borð í skipum félagsins, jafnt farandfólks og annarra. Farandfólkið sé tilbúið að fórna öllu til að komast á brott frá Kanaríeyjum, jafnvel eigin lífi.

Tugir karlmanna finnast á hverju kvöldi í flutningagámum í höfninni. Fáeinum tekst að laumast úr landi. Hinir reyna aftur að komast á brott einhvern næstu daga.

Flestir sem nást í höfninni eru sendir upp í fjallshlíðar á Tenerife-eyju, í Las Raices, stærstu búðir fyrir farandfólk í eyjaklasanum.

Fjölmiðlamenn fá ekki að fara inn í búðirnar. Fyrir utan hlið þeirra hefur hópur fólks úr þeim sest að til bráðabirgða til að vekja athygli á ömurlegri stöðu þeirra sem í búðunum eru. Þeir búi ekki aðeins við þröngan kost heldur viti í raun ekkert hvað bíði þeirra. Margir séu með vegabréf og hafi beðið um hæli. Sumir séu með boðsbréf frá skyldmennum sem vilji taka á móti þeim í ýmsum Evrópulöndum. Þrátt fyrir það sé þeim ekki leyft að ferðast.

Rúmlega 20.000 manns lögðu á sig hættulega siglingu frá norðvestur strönd Afríku til Kanaríeyja í fyrra. Á Gran-Kanarí, stóðu hótel auð vegna farsóttarinnar og var farandfólkinu dreift á þau til bráðabirgða þegar móttökustöðvar fylltust.

Þetta óboðna aðkomufólk er nú horfið frá ferðamannastöðunum, þúsundir hafa verið fluttar aftur yfir til Afríku eða tekist að komast til meginlands Evrópu.

Oft hefur hættuleg spenna myndast milli farandfólksins og heimamanna á eyjunum sem óttast um öryggi sitt og eigna sinna. Ýmsir kjörnir fulltrúar telja að spænsk yfirvöld og Evrópusambandið geri ekki nóg til að verja eyjarnar og þá sem þar búa fyrir þessu óboðna fólki. Fyrsta skrefið hljóti að vera að finna þá sem taki fé fyrir að sigla með fólkið frá Afríku og haldi úti sérstökum móðurskipum í þeim tilgangi. Í öðru lagi komist þessir smyglhringir upp með að nota Kanaríeyjar í eigin þágu sem einskonar stökkpall til meginlands Evrópu en íbúar þar sitji síðan uppi með fólkið þegar öllum leiðum fyrir það er lokað. Það kosti yfirvöld og skattgreiðendur á eyjunum stórfé á sama tíma sem störfum þar fækki og atvinnuleysi aukist.

Af ótta við að verða fluttir til baka til Afríku með valdi yfirgefa margir farandbúðirnar og leggjast út á götur borga eða baðstrendur.

 

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …