Home / Fréttir / Farandfólk peð í fjölþátta hernaði Lukasjenkos

Farandfólk peð í fjölþátta hernaði Lukasjenkos

Hvítrússneskir hermenn og farandfólk við pólsku landamærin.

Alexander Lukasjenko, forseti Hvíta-Rússlands, og stjórn hans sættu harðri alþjóðlegri gagnrýni og fordæmingu mánudaginn 8. nóvember fyrir að beita farandfólki fyrir sig við landamæri Póllands. Mótmæli bárust frá Evrópusambandinu (ESB), Bandaríkjunum og NATO.

Pólverjar sökuðu Hvítrússa um „markvissa stigmögnun spennu“ við landamæri landanna þegar nokkur hundruð farandfólks kom saman við landamærin í Hvíta-Rússlandi og reyndi að komast inn í Pólland og þar með ESB.

Framkvæmdastjórn ESB sakaði Lukasjenko um að „nota fólk sem peð“ í baráttu sinni gegn sambandinu og hvatti hann til að „hætta að stofna lífi fólks í hættu“.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hvatti til framhalds refsiaðgerða gegn Lukasjenko og til þess að könnuð yrðu úrræði til að stöðva flug véla frá þriðju ríkjum með fólk frá Mið-Austurlöndum í þeim tilgangi að það legðist á landamæri ESB-landa.

Í tilkynningu á vefsíðu pólsku ríkisstjórnarinnar sem birtist að kvöldi mánudags 8. nóvember sagði að „stór hópur farandfólks“ hefði streymt að landamærunum undir „fullu eftirliti“ hers Hvíta-Rússlands og embættismanna. Þetta hefði verið „samræmd tilraun“ til að koma fjölda farandfólks inn á landsvæði lýðveldisins Póllands af hálfu stjórnvalda í Hvíta-Rússlandi sem beitti fólkinu í fjölþátta [e. hybrid] árás á Pólland.

Í tilkynningunni sagði að þessi síðasta aðgerð væri „einskonar hefnd“ Lukasjenkos gegn Pólverjum, Litháum og Lettum. Hann sviðsetti straum farandfólks og nýtti sér vandræði þess á kaldrifjaðan hátt í von um að grafa undan stöðugleika í nágrannaríkjum sínum og knýja ESB til að fella úr gildi refsiaðgerðir gegn honum og stjórn hans.

Pólska innanríkisráðuneytið sagði pólska landamæraverði hafa fulla stjórn á málum við landamærunum og atlögunni frá Hvíta-Rússlandi hefði verið hrundið.

Í tilkynningu frá NATO sagði að staðan á landamærunum væri „óviðunandi“ og Lukasjenko var sakaður um að „nota“ farandfólk í „fjölþátta aðgerð“.

Yfirvöld í Varsjá fjölguðu í lögregluliði við landamærin og Mariusz Błaszczak, varnarmálaráðherra Póllands, sagði rúmlega 12.000 hermenn vera tilbúna til að verja landamærin.

Varnarmálaráðuneytið birti myndskeið á vefsíðu sinni sem sýndi stóran hóp farandfólks við landamærin í Hvíta-Rússlandi.

Í samtali við BBC, breska ríkisútvarpið, sagði blaðamaður að sést hefði þegar hvítrússneskur hermaður blés sígarettureyk í augun á ungum faranddreng áður en hann var sendur með tárvot augu fram fyrir sjónvarpsmyndavél til að lýsa hörmulegum aðstæðum sínum og sinna.

Mannréttindasamtök gagnrýna ESB fyrir að beita valdi í því skyni að hrekja farandfólk frá landamærunum samhliða því sem stjórnarherrar einstakra landa eru hvattir til að nýta sér ekki eymd fólksins sem vopn í deilum við aðra.

Öldungadeild pólska þingsins samþykkti fyrir skömmu að reistur yrði varnarveggur á landamærunum gagnvart Hvíta-Rússlandi. Innan ESB hafa nokkrar ríkisstjórnir og hópur ESB-þingmanna hvatt til þess að ESB tæki þátt í kostnaði við að reisa slíkan varnarvegg. Mannréttindahópar leggjast gegn smíði hans.

 

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …