Home / Fréttir / Farage og Trump ásaka NATO og Biden í þágu Pútíns

Farage og Trump ásaka NATO og Biden í þágu Pútíns

Nigel Farage í Panorama-þætti BBC að kvöldi föstudagsins 21. júní 2024.

Nigel Farage, leiðtogi breska stjórnmálaflokksins Reform UK og frambjóðandi í komandi þingkosningum, er sakaður um að ganga erinda Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta eftir að hann sagði föstudaginn 21. júní í samtali við breska ríkisútvarpið BBC að vestrið hefði með ögrunum kallað fram stríðið í Úkraínu.

Hann bætti því síðan að vísu við að „auðvitað“ hvíldi „sökin“ á Vladimir Pútín. „Hann hefur notað það sem við höfum gert sem afsökun,“ sagði Farage.

James Cleverly, innanríkisráðherra Breta, er meðal þeirra sem gagnrýna Farage fyrir að segja að stækkun NATO og ESB hafi á síðustu áratugum leitt til átakanna í Austur-Evrópu.

Cleverly segir á X að ummæli Farage séu „bergmál af illgjarnri réttlætingu Pútíns á grimmdarlegu innrásinni í Úkraínu“.

John Healy, varnarmálaráðherraefni Verkamannaflokksins, er enn harðorðari en Cleverly í gagnrýni sinni. Hann segir Farage „sleikja stígvél Vladimirs Pútíns frekar en standa með íbúum Úkraínu“.

Á ensku nota menn orðin boot licker, stígvélasleikir, um þá sem falla í duftið og verja kúgara eða harðstjóra.

John Healy segir einnig:

„Þetta eru skammarleg ummæli sem afhjúpa rétt andlit Nigels Farage: Hann er málpípa Pútíns, honum má aldrei trúa fyrir öryggi lands okkar.“

Afstaða Trumps

Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana í Bandaríkjunum, gaf til kynna í hlaðvarpsþættinum All-In fimmtudaginn 20. júní að afstaða Joes Bidens Bandaríkjaforseta til hugsanlegrar aðildar Úkraínu að NATO hefði átt þátt í að Rússar réðust inn í landið.

„Pútín hefði aldrei gert þetta hefði ég verið forseti,“ sagði Trump. Hann taldi ekki heldur að stríð hefði orðið milli Ísraels og Hamas eða að verðbólga í Bandaríkjunum hefði orðið eins mikil með sig sem forseta.

Trump er spurður um hugsanlega aðild Úkraínu að NATO og svarar:

„Mér hefur í 20 ár verið sagt að gengi Úkraína í NATO leiddi það til stórvandræða fyrir Rússa. Ég held að það hafi raunverulega leitt til þess að þetta stríð hófst.“

Trump gagnrýndi Joe Biden fyrir að kunna „aldrei að haga orðum sínum rétt“.

„Ein vitleysa sem hann sagði var að Úkraína yrði aðili að NATO. Þegar ég hlustaði á hann sagði ég að þessi maður myndi koma af stað stríði,“ sagði Trump. „Hann segir allt annað en hann á að segja og hann er ekki hættur því.“

Trump telur að Rússar hafi tekið til við að undirbúa stríð um leið og hann hvarf úr forsetaembættinu.

Í blaðinu Kyiv Independent er fjallað um þessi ummæli Trumps og segir þar að afstaða Bidens til aðildar Úkraínu í NATO hafi verið tvíræð og hann hafi ekki lýst beint yfir stuðningi sínum við NATO-aðild landsins. Í júní 2021 hafi Biden til dæmis svarað að það kæmi „í ljós“ hvort Úkraína gæti orðið bandalagsríki.

Trump var spurður hvort hann gæti ábyrgst að sem forseti myndi hann ekki senda bandaríska hermenn til Úkraínu.

„Ég get ábyrgst það. Ég mun ekki gera það, nei,“ svaraði Trump.

Heimild: Berlingske

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …