Home / Fréttir / Fall Mosul eykur líkur á að hryðjuverkamenn láti að sér kveða í Evrópu

Fall Mosul eykur líkur á að hryðjuverkamenn láti að sér kveða í Evrópu

Sigurvissir íraskir hermenn á leið til Mosul.
Sigurvissir íraskir hermenn á leið til Mosul.

 

Sókn kúrdískra og íraskra hermanna gegn liðsveitum hryðjuverkamanna Daesh (Ríki íslams) í borginni Mosul í Írak hófst mánudaginn 17. október. Í Evrópu óttast menn að fyrirsjáanlegur ósigur hryðjuverkamannanna leiði til þess að vígamönnum Daesh fjölgi í álfunni.

Þetta er meðal annars haft eftir Knut Vikør, sérfræðingi í málefnum Mið-Austurlanda og prófessor við háskólann í Bergen, á norsku vefsíðunni ABC Nyheter þriðjudaginn 18. október. Mosul er síðasti stóri bærinn sem er enn á valdi Daesh í Írak.

„Falli Mosul verða vígamenn Daesh sem halda lífi að leita eitthvað annað. Þeir munu fyrst fara á yfirráðasvæði Daesh í Sýrlandi. Sumir halda áfram til Evrópu,“ segir prófessorinn.

Vikør segir að sama gerist nú og eftir sókn Bandaríkjamanna gegn al-Kaída í Írak og Afganistan. Þá héldu Afganir til Evrópu og Bandaríkjanna og létu að sér kveða þar.

Norska öryggislögreglan, PST, óttast að menn frá Noregi sem héldu til yfirráðasvæða Daesh til að hljóta þjálfun og berjast snúi aftur til baka sem vígamenn í hefndarhug og fremji hryðjuverk.

Vikør leggur áherslu á að hér sé einkum um að ræða menn sem eiga vegabréf og vilji nú nota það til að ferðast aftur til Evrópu eða Bandaríkjanna. Þeir sem séu án vegabréfs muni dveljast áfram í Sýrlandi.

Bretinn Julian King fer með öryggismál í framkvæmdastjórn ESB. Hann segir í samtali við þýska blaðið Die Welt að í Evrópu verði menn að búa sig undir að vígamönnum í heilögu stríði, jihadistum, fjölgi í álfunni tapi þeir átökunum um Mosul, virki sitt í norðurhluta Íraks. Hann segir að alvarleg hætta kunni að stafa frá aðeins fáeinum vígamönnum.

Norska fréttastofan, NTB, birtir ummæli sem Harr Vaage, greiningarstjóri Eftirgrennslanastofnunar norska hersins, lét falla fyrir skömmu um að hættan á hryðjuverkum myndi ekki endilega minnka þótt vegið væri að Daesh. Hryðjuverkasamtökin hefðu mikil áróðursáhrif þótt ríki þeirra félli. Það yrðu búnar til sögur um fall kalífatsins og Evrópumönnum lýst sem illa aflinu sem eyðilagði það.

Greiningarstjórinn taldi ekki líkur á að drægi úr hryðjuverkum. Aðförin að Evrópu yrði flóknari en áður og erfiðara að geta sér til um hvar hryðjuverkin yrðu framin. Þetta ætti við um Noreg eins og önnur Evrópulönd. Í augum Daesh væri Noregur lögmætt skotmark en ekki í fremstu röð.

Almennt er talið að það taki langan tíma fyrir heri Kúrda og Íraka að ná Mosul á sitt vald. Við ABC Nyheter segir Knut Vikør að sumir voni að Daesh tapi borginni fyrir árslok aðrir telji að átökin muni taka enn lengri tíma.

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …