Home / Fréttir / Fall Moskvu Marjorie og Úkraínuandstæðinga á hægrivængnum

Fall Moskvu Marjorie og Úkraínuandstæðinga á hægrivængnum

Rússar hylla hana sem hetju. Trump hefur hins vegar sagt skilið við Moscow Marjorie segir í upphafi greinar í danska blaðinu Berlingske laugardaginn 27. apríl eftir Jacob Heinel Jensen, fréttaritara í Washington D.C. undir fyrirsögninni: Hlegið að Moscow Marjorie í Bandaríkjunum.

Í greininni segir að öfgahópar til vinstri og hægri bræðist saman lengst úti á jörðunum.

Í Danmörku gagnrýndu þeir sem eru lengst til vinstri stjórnina í Kyív og kölluðu NATO árásargjarnt varnarbandalag þegar Pútin réðst inn í Úkraínu.

Í Bandaríkjunum tali þeir sem eru lengst til hægri eins og Marjorie Taylor Greene máli Rússa. Nú sé hæðst að henni í Bandaríkjunum á sama tíma og rússneska ríkissjónvarpið hampi henni.

Fulltrúadeildarþingmaðurinn Marjorie Taylor Greene beitti sér mest allra gegn frumvarpinu um aðstoð við Úkraínu þegar það var til meðferðar í deildinni. Þingmenn beggja flokka á þingdeildinni greiddu atkvæði með frumvarpinu þegar það var samþykkt laugardaginn 20. apríl. Öldungadeild þingsins samþykkti frumvarpið síðan þriðjudaginn 23. apríl og daginn eftir skrifaði Joe Biden forseti undir lögin. Hergögn voru tafarlaust send til Úkraínu.

„Þetta styrkir öryggi Bandaríkjanna og heimsbyggðarinnar allrar. Við styrkjum forystu Bandaríkjanna í heiminum,“ sagði Biden miðvikudaginn 24. apríl.

Mál þróuðust þannig á allt annan veg en Marjorie Taylor Greene vildi. Gagnrýnendur Marjorie Taylor Greene í báðum þingflokkum hafa löngum sagt að hún sé nytsamur kjáni Pútins í þinghúsinu. Hún hefur endurflutt áróður hans um „úkraínska nazista“ og segir fráleitt að fyrir Rússlandsforseta vaki að innlima meira af landi í Evrópu.

Nýlega sagði hún á hlaðvarpinu War Room að Rússland væri „skjól kristindómsins“. Og einnig: „Repúblikanar vilja ekki lengur fjármagna stríð erlendis á sama tíma og rekinn er rýtingingur í bak bandarísku þjóðarinnar.“

Þarna hafði hún hins vegar rangt fyrir sér.

Repúblikanar tryggðu samþykki Úkraínufrumvarpsins á þingi með demókrötum og nú hefur hægri vængurinn veikst. Hugsanlega reynir Greene að fella leiðtoga repúblikana í fulltrúadeildinni, Mike Johnson, forseta deildarinnar. Demókratar kunna hins vegar að bjarga honum með atkvæðum sínum. Það yrði enn meiri niðurlæging fyrir öfgamestu hægrisinnanna.

Á þingi er hreyfing fyrir því að ýta vinum Pútins út á hliðarspor.

„Grefur undan flokki okkar og ímynd. Hún – ekki demókratarnir – skapa mestu hættuna fyrir meirihluta okkar og varðstöðu um hann,“ segir Thom Tillis, öldungadeildarþingmaður frá Norður-Karólínuríki.

Blaðamaður Berlingske  spyr hvers vegna Marjorie Taylor Greene hafi orðið svo hægrisinnuð að hún fór að taka málstað Rússa innan íhaldsflokks repúblikana sem ætíð hafi lagt innilegt hatur á Rússa.

Hann segir að þetta megi rekja til Donalds Trumps og Tuckers Carlsons.

Þegar Donald Trump bauð sig fyrst fram sem forseti hófst vangadans repúblikana við Pútin.

Forsetaframbjóðandi flokksins árið 2016 gaf allt í einu algjörlega nýjan tón. Trump sagði nokkrum sinnum að Pútin forseti væri „snjall“. Var talið að það benti til að hann hefði hrifist af Rússlandsforseta. Þrátt fyrir óánægju meðal repúblikana og demókrata af þessum sökum hlaut Trump kosningu að lokum.

Í forsetaembættinu hélt Trump áfram að tala á jákvæðan hátt um Pútin.

Hápunkturinn var á fundi Trumps og Pútins í Helsinki árið 2017. Þá hafði bandaríska alríkislögreglan, FBI, komist að þeirri niðurstöðu að Rússar hefðu haft afskipti af forsetakosningunum árið 2016. Trump tók hins vegar ekki mark á rannsóknum eigin lögreglu og sagði:

„Pútin segir að Rússar hafi ekki blandað sér í kosningarnar. Ég sé ekki hvers vegna ég á ekki að taka mark á honum.“

Í leyniþjónustustofnunum Bandaríkjanna brá mönnum mjög en Trump hélt fast við þá skoðun að mikilvægt væri að eiga samtal við Rússlandsforseta. Trump tapaði fyrir Biden í forsetakosningunum árið 2020 og rúmu ári eftir að Biden tók við af Trump sendi Pútin her inn í Úkraínu og hóf mesta stríð í Evrópu frá lokum annarrar heimsstyrjaldarinnar.

Flestir reiknuðu með því að Trump myndi breyta tali sínu um Pútin en það gerðist ekki. Hann beitti sér þess í stað gegn aðstoðinni við ráðamenn í Kyív á bak við tjöldin í þinginu. Trump sagðist jafnframt geta lokið Úkraínustríðinu á 48 klukkustundum.

Við hlið Trumps og í takt hleypur sjálf ofurhetja hægri vængsins, Tucker Carlson. Á meðan hann var enn starfsmaður sjónvarpsstöðvarinnar Fox News réðst hann oft á Zelenskíj Úkraínuforseta í þætti sínum sem sendur var út á besta tíma. Carslon var ævareiður yfir að Bandaríkjamenn fjármögnuðu varnir Úkraínu.

Tucker Carlson náði lengst í þessu efni fyrir skömmu þegar hann hélt til Kremlar og ræddi við Pútin í nýjum þætti sínum á X. Viðtalið var næsta vandræðalegt og Carlson lagði engar gagnrýnar spurningar fyrir rússneska forsetann.

Þátturinn var eins og áróður og Carlson var hampað í Rússlandi.

Dökka myndin sem Donald Trump og Tucker Carlson hafa dregið upp af Úkraínu samhliða jákvæðri afstöðu þeirra í garð Rússa hefur síast inn í flokk repúblikana og einkum haft áhrif í hægrisinnaða hópnum sem kallast Freedom Caucus en þar var Marjorie Taylor Greene einnig meðal félaga þar til henni varð úthýst.

Fráfarandi leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, Mitch McConnell (82 ára), talaði í þessa veru á dögunum þegar hann sagði við blaðamenn:

„Illmælgin um Úkraínu hófst hjá Tucker Carlson. Að mínu áliti endaði hann að lokum þar sem hann átti alltaf heima, í samtali við Vladimir Pútin.“

McConnell viðurkenndi að gífurlega margir horfðu á Carlson og það hefði átt þátt í að sannfæra repúblikana um að þeir ættu ekki að styðja fjárveitingar til stuðnings Úkraínu.

Marjorie Taylor Greene er meðal þeirra sem láta mest að sér kveða yst til hægri og hefur líklega valið sér þann sess vegna þess boðskapar sem Trump og Carlson fluttu. Hann er óralangt frá hefðbundnum sjónarmiðum repúblikana sem ráðið hafa frá 1952 þegar Dwight Eisenhower sigraði Robert Taft í forkosningum flokksins. Taft var einangrunarsinni en Eisenhower vildi að Bandaríkjamenn gegndu forystuhlutverki í heiminum.

Sigur Eisenhowers setti svip sinn á utanríkisstefnu repúblikana næstu 70 árin.

Greene hefur endurómað það sem Tucker Carlson og Donald Trump hafa sagt og síðan talað vinsamlega um Rússland en illa um Úkraínu. Þetta leiddi til þess að flokksbróðir hennar, Ken Buck, tók að kalla hana Moscow Marjorie.

Í marga mánuði tókst Greene og öðrum einangrunarsinnum meðal repúblikana að bregða fæti fyrir aðstoðina við Úkraínu – það átti einnig þátt í töfunum að repúblikaninn Mike Johnson, forseti fulltrúadeildarinnar, sýndist ekki hafa mikinn áhuga á að aðstoða stjórnina í Kyív. Þar skipti afstaða Donalds Trumps kannski líka máli.

Allt þar til fyrir tveimur vikum.

Starfsmenn bandarískra leyniþjónustustofnana miðluðu upplýsingum til Johnsons þingforseta um stöðu mála í Úkraínu. Þeir bentu á að án aðstoðar Bandaríkjamanna myndu Rússar sigra í stríðinu. Þessi vitneskja ásamt kristinni trú Johnsons urðu til þess að hann sneri við blaðinu.

Þegar Trump varð það ljóst endurmat hann stöðuna.

Væri í raun skynsamlegt að berjast til þrautar á þingi þegar gengið væri til tímamóta kosninga? Algjört uppnám yrði í fulltrúadeildinni ef Trump styddi tilmæli Greene um að reka þingforsetann vegna Úkraínufrumvarpsins.

Trump ákvað frekar að styðja Johnson og sagði á samfélagsmiðli sínum Truth: „Öryggi Úkraínu er einnig mikilvægt fyrir okkur.“ Þetta birtist sem risakúvending hjá Trump í Úkraínumálinu. Tucker Carlson og Marjorie Taylor Greene hljóta að undrast yfir þessari nýju afstöðu Trumps.

Þetta er ekki síst undarlegt vegna þess að neikvæðni í garð Úkraínu og jákvæðni í garð Rússa settu svo mikinn svip á repúblikana að það var farið að hafa áhrif á afstöðu kjósenda. Þegar maður hittir trumpista á MAGA-samkomum [MAGA: Make America Great Again] víðs vegar um Bandaríkin eru langflestir þeirrar skoðunar að Úkraína eigi ekki að fá aðstoð frá Bandaríkjunum. Þeir segja einnig mjög orðum aukið að mikil ógn stafi af Pútin.

Einmitt þess vegna ber að fara varlega í fullyrðingum um að einangrunarstefna Trumps hafi breyst. Forsetinn fyrrverandi vill ef til vill ekki uppnám á þingi á kosningaári en breytir síðan um kúrs verði hann kjörinn forseti.

Marjorie Taylor Greene stendur hins vegar verr að vígi en áður jafnvel þótt hún reyni að fella Mike Johnson í næstu viku. Hún nýtur einfaldlega ekki stuðnings Trumps til þess.

Heimildarmenn Politico segja að í herbúðum Trumps hafi menn fengið nóg af Greene. Þar er hún sögð „heimsk“ og „óæskileg“.

Um tíma var spáð að hún yrði hugsanlega varaforsetaefni Trumps. Engum dettur það í hug lengur. Trump vill engan sem skyggir á hann sjálfan.

Rússum er þó enn hlýtt til Marjorie Taylor Greene. Rússnesk ríkissjónvarpsstöð sýndi mynd af forsíðu blaðsins New York Post með mynd af Greene og fyrirsögninni: Nyet, Moscow Marjorie og taldi þetta allt Greene til framdráttar.

„Marjorie Taylor Greene, þú hefur sýnt að þú ert falleg. Hún er ein af fáum í þinginu sem er sönn manneskja. Hún er ljóshærð, er í hvítum jakka með loðhúfu og er ótvírætt gagnkynhneigð,“ segir Margarita Simonjan í sjónvarpsstöðinni RT í þætti þar sem borið er lof á Greene.

Marjorie Taylor Greene er ekki lengur ofurstjarna repúblikana í Bandaríkjunum. Hún sætir andstöðu og lamandi gagnrýni í eigin röðum – já, meira að segja Trump sjálfur er orðinn þreyttur á háværa þingmanninum frá Georgíu.

Hún er þó – eins og Tucker Carlson – stjarna í Rússlandi.

 

 

Heimild: Berlingske – Jacob Heinel Jensen, fréttaritari í Washington D.C.

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …