
Donald Trump Bandaríkjaforseti hrósaði nýjum forsætisráðherra Ítalíu, Giuseppe Conte, sérstaklega fyrir harða afstöðu stjórnar hans í útlendingamálum í Hvíta húsinu mánudaginn 30. júlí.
Trump sagði að segja mætti um sig og ítalska forsætisráðherrann að þeir hefðu báðir verið „utangarðsmenn í stjórnmálum“ þegar þeir hófu pólitíska baráttu sína og stjórnir þeirra aðhylltust svipaðar hugsjónir, einkum í útlendingamálum.
Fyrir fund þeirra sagði Trump við Conte að hann væri „mjög samþykkur því sem þú ert að gera í útlendingamálum, varðandi ólöglega innflytjendur og einnig varðandi lögmæta innflytjendur“.
Conte lét svipuð orð falla og lýsti Bandaríkjunum og Ítalíu á þann veg að minnti „næstum á tvíbura…. það er svo margt sem tengir okkur saman“.
Conte var valinn sem utanþingsmaður í júní til að leiða samsteypustjórn Fimmstjörnu-hreyfingarinnar (vinstri flokks) og Bandalagsins (hægri flokks). Hann hefur síðan beitt sér af hörku í útlendingamálum og í þágu aukinnar félagslegrar aðstoðar.
Trump notaði blaðamannafundinn með Conte til að árétta einarða andstöðu sína við ólöglega innflytjendur, þar yrði ekki um neina eftirgjöf að ræða. Hann sagðist tilbúinn að stöðva fjárveitingar til reksturs stjórnastofnana í því skyni að knýja fram fjárveitingu svo að hefja mætti framkvæmdir við margboðaða, mannhelda girðingu á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna.
Trump sagði að hann ætti ekki í neinum vandræðum með að skrúfa fyrir fjárgreiðslur en hann mundi ávallt tryggja svigrúm til viðræðna og drægi engin „rauð strik“
Fyrr um daginn hafði Trump hótað á Twitter að loka stjórnarskrifstofum „ef demókratarnir greiða ekki með okkur atkvæði í þágu landamæraöryggis sem nær einnig til múrsins!“