Home / Fréttir / Færeyjar: Símtal beint frá bandaríska sendiherranum vegna COVID-19

Færeyjar: Símtal beint frá bandaríska sendiherranum vegna COVID-19

Tinganes, stjórnarsetur Færeyinga í Þórshöfn.
Tinganes, stjórnarsetur Færeyinga í Þórshöfn.

Danska fréttasíðan Altinget.dk sneri sér til Jeppe Kofods, utanríkisráðherra Dana, og spurði hvort hann hefði eitthvað við það að athuga að Carla Sands, sendiherra Bandaríkjanna í Kaupmannahöfn hefði undanfarna mánuði haft beint samband við nokkra færeyska ráherra án þess að láta utanríkisráðuneytið í Kaupmannahöfn vita um samskiptin.

„Allir sendiherrar í Danmörku, þar á meðal sá bandaríski, geta rætt við fulltrúa stjórnvalda í öðrum hlutum Ríkjasambansins um málefni sem falla undir ábyrgð þeirra. Það á til dæmis við um heilbrigðismál,“ segir Jeppe Kofod í skriflegu svari til Altinget sem birtist mánudaginn 27. apríl.

Á vefsíðunni segir að Carla Sands hafi um miðjan mars hringt í Jenis av Rana, mennta- og utanríkisráðherra Færeyja, til að fræðast um baráttu Færeyinga við COVID-19. Jenis av Rana skýrði frá símtalinu í færeysku útvarpi og fæereyska utanríkisráðuneytið staðfesti símtalið við Altinget.

Þá segir færeyska heilbrigðisráðuneytið við vefsíðuna að bandaríski sendiherrann hafi einnig rætt við Kaj Leo Holm Johannesen heilbrigðisráðherra vegna COVID-19.

Jafnaðarmaðurinn Jeppe Kofod utanríkisráðherra segir að Færeyingar, Danir og Bandaríkjamenn eigi allir í höggi við COVID-19: „Mér finnst það mjög eðlilegt að Færeyingar deili reynslu sinni með öðrum, þar á meðal helstu bandamönnum okkar,“ segir utanríkisráðherrann.

Innan Sósíalíska þjóðaflokksins (SF) mælist ekki vel fyrir að bandaríski sendiherrann hafi snúið sér beint til Færeyinga.

Karsten Hønge, talsmaður SF í utanríkismálum, sagði fimmtudaginn 23. apríl:

„Þetta er alls ekki við hæfi. Færeyjar eru hluti ríkjasambandans þar sem við ráðum vel við að takast á við verkefni okkar á sviði heilbrigðismála. Það er með öllu fráleitt að fá upphringingu frá sendiherra lands þar sem þetta [COVID-19-faraldurinn] er næstum stjórnlaust.“

Í frétt færeysku fréttastofunnar mánudaginn 27. apríl segir að Jenis av Rana fagni stuðningi danska utanríkisráðherrans. Færeyski utanríkisráðherrann vill ekki lýsa neinni tortryggni í garð bandaríska sendiherrans fyrir að hafa snúið sér beint til stjórnvalda í Færeyjum.

„Einhverjir kunna að segja að ég sé barnalegur. Ég held hins vegar að ég geti vel áttað mig á fólki, ég hef þó starfað sem læknir í 37 ár. Ég tel að hér hafi verið um vináttusamlega upphringingu að ræða. Hún hringdi af því að hún sá að tölurnar voru mjög háar á þessum tímapunkti og spurði hvort við þyrftum hjálp,“ segir Janos av Rana.

Høgni Hoydal, formaður stjórnarandstöðuflokksins Þjóðveldi/lýðveldissinnar, er í utanríkismálanefnd færeyska þingsins. Hann segir að menn megi ekki vera svo bláeygir að halda að annað kunni ekki að búa að baki símhringingu frá bandaríska sendiherranum. Hann fagnar því þó að hringt hafi verið beint til Þórshafnar en ekki til Kaupmannahafnar.

„Við vitum best hvað er best fyrir Færeyjar þegar stórveldin gæta hagsmuna sinna. Áhugi stórveldanna eykst aðeins þegar fram líða stundir. Þess vegna verða Færeyingar að taka ákvarðanir en ekki danskir stjórnmálamenn.“

Brandur Sandoy úr stjórnarflokknum Fólkaflokkurinn situr í utanríkismálanefnd. Hann hefur ekki miklar áhyggjur af því að fulltrúi Bandaríkjastjórnar hringdi til Færeyja í þessu tilviki. Danskir stjórnmálamenn eigi ekki að óttast að færeyskir stjórnmálamenn geti ekki leyst málið þegar fulltrúar stórvelda banka á dyr þeirra.

„Auðvitað býr eitthvað að baki tilboði Bandaríkjamanna en við eigum einnig að muna við hverja við eigum náið samstarf. Við vinnum náið með Vestrinu og við erum hluti af því. Mér finnst ekki að danskir stjórnmálamenn eigi að vantreysta færeyskum stjórnmálamönnum vegna þess að þeir séu barnalegri en þeir sjálfir. Við höfum sýnt að við getum framkvæmt okkar eigin utanríkisstefnu,“ segir Brandur Sandoy.

Í fréttinni á Altinget er tekið fram að alls hafi 6.500 verið skimaðir í Færeyjum, rúmlega 12% íbúa eyjanna. Alls hafi 187 fundist smitaðir af COVID-19. Þar af hafi 178 náð sér að nýju.

Er það meðal annars rakið til reynslunnar af laxeldi að Færeyingar hafi getað skimað svona marga. Þar sé lögð mikil áhersla á skimun eftir að færeyskt fiskeldi varð illa úti í upphafi aldarinnar vegna sjúkdóma.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …