Home / Fréttir / Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Undirskrit samnings 19.ágúst 2021. Frá vinstri Niclas Backlund. fltr. Ericsson í Danmörku. Jan Ziskasen, forstjóri í Føroya Tele, og Bjarni Arnason, stjórnarformaður.

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki kínverska fyrirtækinu Huawei. Ætlunin er að innleiðingu kerfisins verði lokið 2023.

Vegna sameiginlegra tilrauna Huawei og Føroya Tele í júní 2019 á 5G-farkerfinu var talið hugsanlegt að færeyska fyrirtækið mundi eiga þessi viðskipti við Kínverjana.

Bandaríkjastjórn leggst eindregið gegn viðskiptum við Huawei og kynnti sjónarmið sín rækilega fyrir Færeyingum. Føroya Tele er opinbert símafyrirtæki og kynnti áform sín um viðskiptin við Ericsson á blaðamannafundi 19. ágúst 2021.

Jan Ziskasen, forstjóri Føroya Tele, sagði við Kringvarp Føroya að frá 2019 hefði fyrirtækið kynnt sér það sem væri í boði frá Nokia, Huawei og Ericsson. Lagt hefði verið mat á tæknilega þætti og öryggi auk þess hvernig samstarfi við seljanda yrði háttað fyrir utan verð og viðskiptakjör. Eftir mat á öllum þessum þáttum hefði Ericsson orðið fyrir valinu.

Í tilefni af þessari ákvörðun Føroya Tele er rifjað upp að í nóvember 2019 varaði Carla Sands, þáverandi sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku, við viðskiptum við Huawei, ekki væri unnt að greina fyrirtækið frá kínverska ríkinu og njósnastarfsemi á þess vegum. Innan NATO yrðu menn að geta átt í öruggum og opnum samskiptum um trúnaðarmál, það yrði áhyggjuefni ef tækifæri til þess hyrfu vegna starfsemi fyrirtækja undir forsjá kínverska kommúnistaflokksins.

Um svipað leyti og þessi orð féllu var Feng Tie, kínverski sendiherrann í Danmörku, á Færeyjum og hótaði stjórnvöldum þar að ekki yrði um fríverslun milli Kína og Færeyja að ræða yrði Huawei-farkerfið ekki valið fyrir 5G í Færeyjum.

Síðan þetta gerðist hefur lögum verið breytt í Danmörku og einnig fyrir Færeyjar um sérstaka öryggisaðgát vegna mikilvægra grunnvirkja. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, sagði einnig að framtíðar farkerfi féllu undir reglur um þjóðaröryggi.

Jan Ziskasen, forstjóri Føroya Tele, segir að hann telji sig ekki hafa verið beittan pólitískum þrýstingi við ákvörðun sína og höfnun á Huawei sem hefur átt samstarf við færeyska símafyrirtækið frá árinu 2015. Stjórn og stjórnendur Føroya Tele hafi tekið sjálfstæða ákvörðun á grunni framlagðra gagna.

Føroya Tele hefur ekki skýrt frá kostnaði við samninginn við Ericsson.

Nema, lítið færeyskt farskiptafyrirtæki, segir við Kringvarp að það ætli að nota Huawei 5G-tækni þar til stjórnvöld stöðvi notkunina.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …