Home / Fréttir / Færeyingar orðnir 50.000 búa sig undir nýja stjórnarskrá

Færeyingar orðnir 50.000 búa sig undir nýja stjórnarskrá

Aksel Johannesen, lögmaður Færeyja.
Aksel Johannesen, lögmaður Færeyja.

Að ári munu Færeyingar greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá sem markar stöðu þeirra skýrar innan danska ríkisins og hefur að geyma ákvæði um hvernig staðið skuli að málum ákvæði á síðari stigum að stíga lokaskrefið til fulls sjálfstæðis.

Þau söguleg tímamót urðu fyrir skömmu að opinber fjöldi íbúa Færeyja fór í fyrsta sinn yfir 50.000. Hagvöxtur á eyjunum er 7 til 8% á ári og atvinnuleysi um 2%.

Landsstjórnin Færeyja sem nú situr var mynduð í september 2015 þegar  forystumenn Jafnaðarmannaflokksins, Tjóðveldi og Framsókn gerðu stjórnarsáttmála.

Aksel V. Johannesen, lögmaður Færeyja, formaður Jafnaðarmannaflokksins, var hér á landi þriðjudaginn 25. apríl sem er fánadagur Færeyinga. Var móttaka af því tilefni í Flórunni í Grasagarðinum í Laugardal.

Í ræðu sinni þar rifjaði lögmaðurinn upp að færeyski fáninn, sem Færeyingar kalla Merkið, hafi komið til sögunnar árið 1919. Danska stjórnin samþykkti ekki á þeim tíma að Færeyingar hefðu eigin fána.

Þetta breyttist í síðari heimsstyrjöldinni. Nazistar hernámu Danmörku og síðan Noreg en Bretar hernámu hins vegar Færeyjar í apríl 1940. Þá sigldu færeysk skip með fisk til Bretlands og þeim var nauðsyn að bera færeyskan fána frekar en danskan til að tryggja að litið væri á þau sem bandamenn frekar en óvini.

Þess vegna gerðist það 25. apríl 1940 að breska ríkisstjórnin og bandamenn hennar viðurkenndu færeyska fánann sem flagg Færeyja. Síðan hafa Færeyingar haldið þennan dag hátíðlegan sem opinberan fánadag sinn, sagði lögmaðurinn.

Hann sagði enga þjóð standa nær Færeyingum en Íslendinga. Þá vitnaði hann í ljóð Hannesar Péturssonar þar sem segir: Hvergi er Íslendingur minni útlendingur en í Færeyjum.

Lögmaðurinn minntist þess að eftir rokið mikla í Færeyjum eftir jól hefðu Færeyingar kynnst hlýju Íslendinga í sinn garð. Þegar hópur góðhjartaðra Íslendinga hefði stigið fram til að safna umtalsverðri fjárhæð til stuðnings hugdjörfum færeyskum björgunarsveitum. Færði hann Íslendingum einlægar þakkir fyrir örlæti þeirra og framtakið.

Aksel V. Johannesen sagði að fyrir skömmu hefðu þau sögulegu tíðindi gerst að opinber fólksfjöldi í Færeyjum hefði farið yfir töluna 50.000 í fyrsta sinn. Þetta væru sannarlega tímamót fyrir Færeyinga því að ekki væru nema fá ár liðin frá því að fyrirsagnir hefðu verið um að ungt fólk vildi og væri að yfirgefa Færeyjar. Ungir Færeyingar við nám erlendis vildu ekki snúa heim aftur. Nú sé ekki lengur talað um „frá Færeyjum“ heldur „til Færeyja“. Margir sem stundað hefðu nám og búið erlendis sneru til baka. Útlendingar kæmu einnig til Færeyja og settust að á eyjunum og stunduðu þar vinnu. Fæðingum fjölgaði og færeyskar konur eignuðust eins og áður fleiri börn að meðaltali en í flestum löndum Vestur-Evrópu.

Mikil viðfangsefni biðu úrlausnar í færeysku samfélagi. Þar væri enn skekkja þegar litið væri til kynja- og aldursskiptingar, þetta væri án efa stærsta viðfangsefnið. Landsstjórnin legði mikla áherslu á að fjárfesta í ungu fólki, menntun, menningu og fjölskyldum með ung börn.

Nú væri 7 til 8% vöxtur í færeysku efnahagslífi og atvinnuleysi um 2%. Hagkerfið væri hins vegar brothætt og sýna yrði sérstaka aðgæslu til að viðhalda öflugu velferðarkerfi. Þess vegna væri unnið að kerfisbreytingum á mörgum sviðum, þar á meðal varðandi stjórn fiskveiða.

Lögmaður sagði að stjórn sín legði mikla áherslu á alþjóðleg samskipti og þar með leit að nýjum mörkuðum til útflutnings og innflutnings.  Í því efni skipti miklu að eiga frjáls viðskipti við eins margar þjóðir og frekast væri unnt. Færeyingar hefðu viðskiptasamninga við ESB, Norðmenn, Svisslendinga og Tyrki. Víðtækasti samningurinn væri Hoyvikur-samningurinn við Íslendinga.

Eftir að Bretar hefðu ákveðið að segja sig úr ESB yrðu Færeyingar að laga sig að nýjum aðstæðum. Bretar skiptu þá miklu í fiskveiðum og viðskiptum. Það skipti mjög miklu að semja við Breta eftir úrsögn þeirra og tryggja góð samskipti við þá og ESB.

Þá gat lögmaðurinn þess að vest-norrænasamstarfið og norðurskautssamstarfið skipti Færeyinga einnig miklu.

Undir lok ræðu sinnar gat lögmaðurinn þess að nákvæmlega eftir eitt ár á þessum degi mundu Færeyingar greiða þjóðaratkvæði um nýja stjórnarskrá. Atkvæðagreiðslan snerist ekki um fullt fullveldi. Hún mundi hins vegar staðfesta sjálfsákvörðunarrétt Færeyinga. Stjórnarskráin mundi skilgreina sérkenni þjóðarinnar og grundvallarréttindi hennar og skyldur. Í henni yrði einnig að finna ákvæði um hvernig staðið yrði að málum ef eða þegar Færeyingar tækju ákvörðun um að Færeyjar yrðu sjálfstætt ríki.

Lögmaðurinn sagði að ríkisstjórn sín stefndi að sem víðtækustum stuðningi við nýju stjórnarskrána bæði á þingi og meðal allra Færeyinga.

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …