
Svetlana Tikhanouskaja, 37 ára fyrrverandi enskukennari, sem bauð sig fram til forseta í Hvíta-Rússlandi og tapaði er nú í Litháen. Linas Linkevicius, utanríkisráðherra Litháens, skýrði frá þessu á Twitter þriðjudaginn 11. ágúst. Síðar sagði utanríkisráðherrann að Tikhanouskaja hefði verið sjö klukkustundir í haldi eftir að hún gekk á fund yfirkjörstjórnar og heimtaði endurtalningu atkvæða.
Á myndbandi sem birtist á fréttavefsíðunni tut.by 11. ágúst sagði Tikhanouskaja:
„Ég tók mjög erfiða ákvörðun. Ég tók hana ein. Hvorki vinir, vandamenn, kosningateymið né Sjarhej [eiginmaður hennar] höfðu nokkur áhrif á hana. Ég veit að margir skilja mig, margir dæma mig og margir hata mig. Guð forði öllum frá að þurfa að standa í mínum erfiðu sporum.“
Eftir að hún bauð sig fram til forseta var henni hótað á ýmsan hátt og meðal annars að börn hennar væru ekki óhult. Kom hún þeim þá fyrir í Litháen en aðeins 170 km eru á milli höfuðborganna Vilnius í Litháen og Minsk í Hvíta-Rússlandi. „Við eigum ekkert dýrmætara en börnin,“ sagði Tikhanouskaja á myndbandinu sem birtsyt 11. ágúst og dvelst hún nú með börnum sínum í Litháen.
Svetlana Tikhanouskaja fór frá Hvíta-Rússlandi að kvöldi mánudags 10. ágúst þegar mótmælaalda reis að nýju um landið allt vegna ásakana um að brögð hefðu verið í tafli í kosningunum þar sem Alexander Lukasjenko (65 ára) var endurkjörinn forseti í sjötta skipti síðan 1994, að þessu sinni með 80% atvæða en Tikhanouskaja fékk 10%
Volha Kavalkova, upplýsingafulltrúi Tikhanouskaju, sagði 11. ágúst að stjórnvöld Hvíta-Rússlands hefðu flutt hana úr landi. Kavalkova sagði:
„Svetlana átti engra kosta völ. Það er mikilvægt að hún sé frjáls og á lífi. Hún fór með kosningastjóra sínum Maryja Maroz. Hluta af kosningateymi Svetlönu er hins vegar haldið hér í gislíngu [í Hvíta-Rússlandi].“
Upplýsingafulltrúinn sagði að nú hefði kosningateymið tvíþætt höfuðmarkmið: að standa vörð um lögmætt val Hvít-Rússa og koma í veg fyrir ofbeldi og blóðbað.
Þiðjudaginn 11. ágúst lá internetið niðri í Hvíta-Rússlandi, þriðja daginn í röð. Þá áttu margir fréttamenn erfitt með að nýta farsíma sína þar sem SIM-kortin höfðu verið gerð óvirk.
Kosningareymi Tikhanouskaju náði ekki sambandi við hana mánudaginn 10. ágúst eftir hún fór af fundi yfirkjörstjórnar. Áður en til fundarins kom hafði hún lýst sigri sínum í kosningunum.
Alexander Lukasjenko endurtók 10. ágúst ásakanir sínar um að erlend öfl stæðu að baki mótmælaaðgerðum í landinu, hann kallaði mótmælendur „sauði“ á valdi þeirra sem vildu bola sér frá völdum.
„Það var hringt frá Póllandi, Bretlandi og Tékklandi til að smala, afsakið orðbragðið, sauðum okkar,“ sagði forsetinn. „Þeir reyna að koma illu af stað. Varnaðarorð mín eru á hinn bóginn skýr: það verður engin bylting.“