Home / Fréttir / Eystrasalt: Rússnesk flugskeytaæfing liður í stórpólitísku valdatafli

Eystrasalt: Rússnesk flugskeytaæfing liður í stórpólitísku valdatafli

 

Rússnesku Iskander-flugskeyti skotið á loft.
Rússnesku Iskander-flugskeyti skotið á loft.

Johannes Riber Nordby, herfræðingur hjá Forsvarsakademiet í Danmörku, segir að líta beri á þriggja daga flugskeytaæfingu Rússa í suðurhluta Eystrasalts í næstu viku sem lið í stórpólitísku valdatafli sem tengist viðbrögðunum vegna eiturefnaárásar Rússa í Salisbury í Suður-Englandi 4. mars gegn Sergej Skripal og dóttur hans Juliu.

„Hér er um að ræða stórpólitík. Ég tek mið af tímasetningunni og að stofnað er til æfingarinnar með skömmum fyrirvara,“ segir herfræðingurinn við Jyllands-Posten laugardaginn 31. mars. „Ég er ekki í neinum vafa um að um er að ræða bein viðbrögð við brottrekstri sendiráðamannanna.“

Rúmlega 25 vestræn ríkið hafa vísað rússneskum sendiráðsmönnum úr landi vegna árásarinnar á Skripal-feðginin. Bresk og bandarísk stjórnvöld eru sannfærð um að Rússar standi að baki árásinni. Rússar hafa svarað brottrekstri sinna manna með því að reka sama fjölda frá Rússlandi auk sérstakra aðgerða gegn Bretum til að sami fjöldi breskra sendiráðsmanna sé í Rússlandi og rússneskra í Bretlandi.

Rússneska Sputnik-fréttastofan birti þessa mynd síðdegis föstudag 30. mars og sýnir hún Pútín á fundi með rússneska þjóðaröryggisráðinu.
Rússneska Sputnik-fréttastofan birti þessa mynd síðdegis föstudag 30. mars og sýnir hún Pútín á fundi með rússneska þjóðaröryggisráðinu.

„Við skulum minnast þess að stjórnir allra ríkja við Eystrasalt hafa rekið sendiráðsmenn úr löndum sínum. Hér er um að ræða Eystrasaltsríkin, Finnland, Svíþjóð, Þýskaland, Pólland og Danmörku. Hvers vegna stofna Rússar ekki til æfinga á Svartahafi eða Miðjarðarhafi? Ég veit ekki til þess að Rúmenar, Búlgarar eða Tyrkir hafi rekið rússneska sendiráðsmenn úr landi. Þetta er einfaldlega stórpólitík. Ég tek mið af tímasetningunni og að stofnað er til æfingarinnar með skömmum fyrirvara,“ segir Johannes Riber Nordby.

„Hafi Rússar ákveðið fyrir nokkrum mánuðum að efna til þessarar æfingar, hvers vegna var á ekki skýrt frá henni fyrir nokkrum mánuðum? Hvers vegna þetta fljótræði? Hér er um hluta af valdatafli að ræða, Rússar vilja segja með þessu að þeir láti ekki hræða sig með brottrekstri sendiráðsmanna. Þeir vilja sýna að þeir láti ekki segja sér fyrir verkum,“ segir herfræðingurinn.

Í sænska blaðinu Dagens Nyheter segir að æfingasvæðið sé utan lögsögu Svía og Dana en á flugstjórnarsvæði Svía.

Jörgen Andersson, yfirmaður flug- og flugvalladeildar sænsku samgöngustofunnar, segir við sænska blaðið að æfingin sé óvenjuleg, hann hafi aldrei fyrr kynnst neinu sambærilegu. Hann segir að æfingasvæðinu verði lokað fyrir almennri flugumferð og vélar margra flugfélaga verði að breyta um leið vegna þessa. Þá verði tafir á flugi vegna þrengri flugleiða á meðan Rússarnir skjóta flugskeytum sínum. Það sé mikil flugumferð á þessu svæði.

 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …