Home / Fréttir / Eyðilagði sæstrengi á Eystrasalti undir kínverskum fána

Eyðilagði sæstrengi á Eystrasalti undir kínverskum fána

Newnew Polar Bear.

 

Upplýsingar frá vaktstöð siglinga um Norðurleiðina, það er frá Atlantshafi til Kyrrahafs fyrir norðan Rússland, sýna að föstudaginn 3. nóvember sigldi 169 m langa gámaskipið Newnew Polar Bear um Austur-Síberíuhaf.

Þremur dögum síðar fór skipið um Berings-sund og inn á hafsvæðið sem skilur að Tsjukstsíj-skaga á Rússlandi og Alaskaríki í Bandaríkjunum. Mánudaginn 6. nóvember sigldi skipið í suðurátt á Beringshafi og talið er líklegt að það leggist að bryggju í einhverri rússneskri Kyrrahafshöfn einhvern næstu daga.

Lengst af á Norðurleiðinni átti Newnew Polar Bear samflot með kjarnorkuknúna ísbrjótnum 50 Let Pobedíj og flutningaskipunum Pola Dudinka og Terskíj Bereg.

Nú frýs ísinn hratt á Norðurleiðinni og segir Rosatom sem heldur úti kjarnorkuknúnu, rússnesku ísbrjótunum að í ár verði ekki fleiri skipum fylgt í austurátt frá Atlantshafi.

Newnew Polar Bear hélt af stað frá Arkangelsk í vesturhluta Norður-Rússlands 25. október. Áður skipið hélt í Norður-Íshafið hafði ferðalag þess vakið ýmsar grunsemdir.

Finnska sakamálarannsóknarstofnunin (e. Finnish National Bureau of Investigation) segir að fyrirliggjandi gögn bendi eindregið til þess að rekja megi tjón sem unnið var á Baltcconnector-gasleiðslunni milli Eistlands og Finnlands 8. október til skipsins. Stjórnandi rannsóknarinnar, Risto Lohi, sagði á blaðamannafundi að sjá mætti 1,5 til 4 metra breitt far á hafsbotni eftir eitthvað sem dregið var að leiðslunni þar sem hún var eyðilögð.

Á hafsbotni má sjá þetta far sem liggur að gasleiðslunni þar sem hún eyðilagðist.

Þá er einnig talið líklegt að skipið hafi einnig valdið skaða á tveimur fjarskiptasætrengjum, annars vegar milli Eistlands og Finnlands og hins vegar milli Eistlands og Svíþjóðar. Sænska ríkisstjórnin tilkynnti 19. október að það virtust tengsl á milli þessara atvika.

Í finnskum fjölmiðlum hefur verið sagt frá því að yfirvöld í Finnlandi hafi reynt að ná sambandi við Newnew Polar Bear með tilmælum um að það sneri til hafnar í Finnlandi vegna rannsóknar atviksins. Þau höfðu ekki tök á að stöðva skipið þar sem það var á alþjóðlegri siglingaleið.

Í grein í Berlingske mánudaginn 6. nóvember segir að grunurinn um hlutdeild kínverska skipsins herðist við að í ljós kemur á myndum af skipinu að annað akkeri þess er ekki á sínum stað og finnsk yfirvöld fundu akkeri við gasleiðsluna þar sem hún fór í sundur.

Newnew Polar Bear siglir undir fána Hong Kong en skipið hefur rússnesk tengsl. Rússneska vaktstöð norðursiglinga gaf útgerðarfélaginu Torgmoll heimild til að senda skip eftir Norðurleiðinni. Félagið er skráð í Rússlandi með skrifstofur í Moskvu og Shanghai.

Skömmu áður en skipið lagði úr höfn í Arkangelsk 25. október 2023 var heimild útgerðarinnar til að senda skip eftir Norðurleiðinni uppfærð. Fyrri heimild gilti til 31. október en gildistími nýju heimildarinnar er til 15. nóvember.

Af opinberum gögnum á netinu um ferðir skipa má ráða að Newnew Polar Bear hafi farið frá rússnesku hafnarborginni Petropavlovsk á Kyrrhafsströnd Rússlands 14. september og 3. október kom skipið til hafnar í Kaliningrad, hólmlendu Rússa, við Eystrasalt. Þremur dögum síðar kom það til herflotastöðvarinnar í Baltiisk sem er einnig í Kaliningrad. Þaðan hélt skipið um Finnska flóa milli Eistlands og Finnlands til St. Pétursborgar í Rússlandi og kom þangað 8. október, sama dag og tjónið var unnið á gasleiðslunni en það gerðist klukkan 01.20. Skipið var aftur í Kaliningrad 13. október og hélt sama dag áfram, norður með strönd Noregs og um Barentshaf til Arkangelsk þangað sem það kom 21. október.

 

 

Heimild: Barents Observer

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …