Home / Fréttir / Evrópuríki óttast tölvuárásir Rússa vegna kosninga

Evrópuríki óttast tölvuárásir Rússa vegna kosninga

cyber-war

Öryggis- og leyniþjónustustofnanir Bandaríkjanna hafa birt skýrslu um árásir rússneskra tölvuþrjóta á stjórn Demókrataflokksins og fleiri í tengslum við forsetakosningarnar í fyrra. Franski varnarmálaráðherrann, Jean-Yves Le Drian, segir við blaðið Le Journal du Dimanche: „Ekki er unnt að útiloka að að aðgerðum á borð við þær sem við höfum séð í Bandaríkjunum verði beitt til að trufla frönsku forsetakosningarnar.“ Þær verða í lok apríl og byrjun maí í ár.

Ráðherrann segir að Frakkar hafi ekki orðið fyrir slíkri árás til þessa en það sé „barnalegt“ að telja þá ekki geta orðið skotmark. Þeir séu tilbúnir til gagnárásar: „Frakkar áskilja sér rétt til að svara með öllum ráðum sem við teljum við hæfi,“ segir Jean-Yves Le Drian.

Á árinu 2016 komu franskar öryggisstofnanir í veg fyrir 24.000 tölvuárásir og þar á meðal „nokkur hundruð sem hefðu getað valdið okkur tjóni“ segir varnarmálaráðherrann. Árásirnar beindust meðal annars gegn ráðuneytum og strategískum skotmörkum sem hefði mátt nota sem felustað fyrir njósnir inn í önnur tölvukerfi, þá var einnig hvað eftir annað reynt að brjótast inn í tölvukerfi dróna franska hersins.

Gengið verður til kosninga í Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi og Tékklandi á árinu 2017. Þar og í öðrum ESB-löndum hafa tölvuvarnir verið efldar eftir reynslu Bandaríkjamanna.

Frakkar ætla að tvöfalda fjölda þeirra sem standa vörð um tölvukerfi ríksins. Markmiðið er að árið 2019 ráði franska ríkið yfir 2.600 starfrænum stríðsmönnum eins og þeir eru nefndir sem hafi það hlutverk með aðstoð 600 sérfræðinga að halda tölvuþrjótum í burtu.

Bert Koenders, utanríkisráðherra Hollands, sagði fimmtudaginn 12. janúar í sjónvarpsviðtali að ríkisstjórnin stæði á verði vegna hugsanlegra töluvárása í tengslum við þingkosningarnar 15. mars. Áður hafði eftirgrennslanaþjónusta ríkisins, AIVD, varað við hættunni.

Kosið verður til þýska sambandsþingsins síðsumars eða haustið 2017. Strax í nóvember 2016 flutti Angela Merkel kanslari viðvörunarorð vegna hættu á að Rússar myndu ef til vill reyna að hafa áhrif á kosningarnar.

Heimildarmenn innan eftirgrennslanastofnana Þýskalands hafa sagt að Rússar styðji nú þegar ESB-efasemdarmenn og andstæðinga farand- og flóttafólks í Þýskalandi og hvarvetna innan ESB. Hans Georg Maassen, forstjóri skrifstofunnar til verndar þýsku stjórnarskránni (BfV), leyniþjónustu Þýskalands, segir vísbendingum um að Rússar beiti sér innan þýska þingsins fjölgi þar sem Þjóðverjar hafi beitt sér fyrir hörðum refsiaðgerðum gegn Rússum vegna Úkraínudeilunnar.

Maassen sagði mánudaginn 9. janúar að Þjóðverjar auki nú getu sína til að geta svarað tölvuárás í sömu mynt: „Við eigum einnig að vera til þess búnir að ráðast á óvininn svo að hann hætti að ráðast á okkur,“ sagði Maassen í samtali við þýsku dpa-fréttastofuna.

Tékkneska ríkisstjórnin vinnur að því að koma á fót sérstökum hópi til að fylgjast með miðlun lygafrétta. Að mati sérfræðinga standa rússnesk stjórnvöld að baki um 40 vefsíðum á tékknesku sem boða öfgaskoðanir, samsæriskenningar og ónákvæmar upplýsingar með það í huga að grafa undan vestrænni afstöðu þjóðarinnar fyrir kosningar sem verða að óbreyttu í október.

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …