Home / Fréttir / Evrópskt átak til bjargar brottnumdum börnum

Evrópskt átak til bjargar brottnumdum börnum

Börn í austurhluta Úkraínu flutt á brott af Rússum á leið til lestarstöðvar.

Framkvæmdastjórn ESB og pólska ríkisstjórnin kynntu fimmtudaginn 23. mars sameiginlegt átak til að vinna að því að börn sem Rússar hafa numið á brott af hernumdum svæðum í Úkraínu fái að snúa aftur heim til sín.

„Að nema börn á brott er stríðsglæpur,“ sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, að kvöldi fimmtudagsins 23. mars þegar fyrra fundardegi leiðtogaráðs ESB lauk.

„Vegna þessa máls höfum við Morawiecki forsætisráðherra, í samvinnu við Úkraínumenn, hafið átak til að þessi börn sem Rússar hafa numið á brott fái að snúa aftur heim. Við munum efna til ráðstefnu í þessu skyni. Við erum að hefja mjög erfitt verkefni.“

Framkvæmdastjórn ESB segir að Rússar hafi numið 16.200 börn á brott og aðeins um 300 snúið til baka.

Von der Leyen sagði brottnám barnanna „glæpaverk sem réttlætti að öllu leyti handtökuskipun af hálfu ICC (alþjóðasakamáladómstólnum).“

Á dögunum gaf ICC út handtökuskipun á hendur Vladimir Pútin Rússlandsforseta og Mariu Aleksejevna Lvovu-Belovu, umboðsmanni barna í Rússlandi. Þau eru sökuð um ábyrgð á stríðsglæp fyrir ólöglegt brottnám barna  og ólöglegan brottflutning þeirra til frá hernumdum svæðum í Úkraínu til Rússlands.

Af handtökuskipuninni leiðir að ferðist þau til einhvers af ríkjunum 123 sem viðurkenna lögsögu ICC kunna þau að verða handtekin.

Von der Leyen sagði að framtak framkvæmdastjórnarinnar og Pólverja miðaði að því að magna alþjóðlegan þrýsting til að komast að því hvert hefði verið farið með börnin.

Rússar réttlæta brottflutning barnanna og að þau skuli neydd til að taka upp rússneskan ríkisborgararétt með þeim orðum að þeir séu að vernda umkomulaus börn auk þess nota þeir myndir af börnunum í áróðursskyni til að sanna mannúð sína!

Rússneskum lögum um ættleiðingu og ríkisborgararétt var breytt vorið 2022 til að auðvelda rússneskum ríkisborgurum að ættleiða foreldralaus börn frá Úkraínu.

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …