Home / Fréttir / Evrópskir ráðamenn vænta góðs af samstarfi við Biden-stjórnina

Evrópskir ráðamenn vænta góðs af samstarfi við Biden-stjórnina

48293939_303

Evrópskir forystumenn á stjórnmálavettvangi segja að Joe Biden, væntanlegur Bandaríkjaforseti, og samstarfsmenn hans gefi vonir um að unnt verði að blása nýju lífi í fjölþjóðlegt samstarf Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra. Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseti, hafði ekki áhuga á fjölþjóðlegu samstarfi og vildi að embættismenn sínir færu eigin leiðir.

Augusto Santos Silva, utanríkisráðherra Portúgals, sagði við þýsku DW-fréttastofuna að það væri mikilvægt að ESB endurreisti „tengslin yfir Atlantshaf“. Ráðamenn í Brussel yrðu „að nýta þáttaskilin til að endurvekja tengslin milli Evrópumanna og Bandaríkjanna svo að þau yrðu bandamönnum sæmandi“.

Portúgalski utanríkisráðherrann sagði að Antony Blinken sem Biden hefur tilnefnt sem utanríkisráðherra væri „mjög hlynntur Evrópu“, reyndur diplómat og stjórnmálamaður. Portúgalinn var í Berlín þriðjudaginn 24. nóvember til að hitta þýska utanríkisráðherrann, Heiko Maas.

Í janúar 2021 taka Portúgalir við forsæti í ráðherraráði ESB af Þjóðverjum.

„Vandinn við Trump-stjórnina var að Trump forseti kom fram við evrópska bandamenn sína eins og þeir væru óvinir eða andstæðingar,“ sagði Santos Silva utanríkisráðherra. „Við erum ekki andstæðingar Bandaríkjanna. Við erum góðir vinir Bandaríkjamanna. Við erum bandamenn.“

Heiko Maas utanríkisráðherra tók undir með Santos Silva og sagði að hann vildi „laga“ Atlantshafstengslin með Biden eftir að hafa árum saman verið á „slysavakt“ vegna Trump-stjórnarinnar.

Norbert Röttgen, sérfræðingur CDU-flokks Angelu Merkel í utanríkismálum, sagði að ráðherraval Bidens færi að „okkar bestu óskum“.

Henning Riecke við Þýsku alþjóðamálastofnunina sagði að nú ætti að takast að leysa úr ágreiningi milli ESB og bandarískra yfirvalda á sviði viðskipta og tækni en þar hefði víða komið til vandræða í forsetatíð Trumps.

Riecke sagði við DW að í viðræðum við Biden-stjórnina kynni ef til vill að takast að semja um afnám refsitolla á evrópsk fyrirtæki samhliða því sem viðhorf í utanríkismálum yrðu samræmd. Ráðamenn í Brussel og Washington gætu til dæmis „samið að nýju um dýpri samvinnu og sameiginlega afstöðu andspænis vexti Kína, einkum á tæknisviðinu,“ sagði hann.

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …