Home / Fréttir / Evrópa: Þanþolið gagnvart aðkomufólki að bresta

Evrópa: Þanþolið gagnvart aðkomufólki að bresta

Móttökustöð fyrir flóttamenn í München í Bæjaralandi.
Móttökustöð fyrir flóttamenn í München í Bæjaralandi.

Í Evrópu búa menn sig undir nýja bylgju af flóttamönnum eftir að það spyrst innan raða þeirra að nú sé auðveldara en áður að komast í gegnum Ungverjaland. Sunnudaginn 6. september komu hundruð flóttamanna í lestum frá Ungverjalandi til Westbanhof í Vínarborg. Þá höfðu ungverskir embættismenn heimilað þúsundum flóttamanna sem höfðu verið stöðvaðir í .Búdapest að halda áfram för sinni.

Þeir sem tóku á móti flóttamönnunum á brautarstöðinni í Vínarborg fögnuðu þeim með gleðihrópum. Í Ungverjalandi hafði verið beitt táragasi til að hrella flóttafólkið sem hafði búsið um sig við Keleti-brautarstöðina í Búdapest. Að morgni sunnudags voru flestir farnir leiðar sinnar með járnbrautarlestum.

Ýmsir ungverskir ráðamenn hafa lýst áhyggjum yfir að fréttir af mildari viðbrögðum í Ungverjalandi muni kalla á nýja flóttamannabylgju. Vilja þeir að varðstaða við girðinguna sem reist hefur verið á landamærum Serbíu verði aukin.

Flóttamennirnir vilja flestir komast til Þýskalands. Mánudaginn 7. september töldu yfirvöld í Bæjaralandi, þýska sambandslandinu næst Austurríki, að þau mundu þann daga taka á móti 10.000 flótta- og farandfólki en um helgina komu þangan 20.000.

Frá München, höfuðborg Bæjaralands, er aðkomufólkið flutt með lestum eða langferðabílum til annarra borga í Þýskalandi þar sem því er komið fyrir í sérstökum búðum á meðan umsóknir um hælisvist eru skoðaðar.

Í München hefur almenningur tekið á móti fólkinu á brautastöð borgarinnar, fært því mat og drykk og börnunum leikföng. Yfirvöldin segja hins vegar að nú sé brátt komið að mörkum þess fjölda sem unnt sé að sinna.

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …