Home / Fréttir / Europol: Smygjaldið fyrir komast til Evrópu allt að þrefaldast

Europol: Smygjaldið fyrir komast til Evrópu allt að þrefaldast

A151

Gjaldið sem smyglarar taka fyrir að koma farandfólki til Evrópu hefur allt að þrefaldast undanfarna sex mánuði miðað við það sem var í fyrra segir í nýrri skýrslu Europol, Evrópulögreglunnar.

Þetta kemur fram í frétt sem Valentina Pop skrifar í The Wall Street Journal þriðjudaginn 28. júní.

Þar segir að í lok sumars 2015 hafi farandfólk greitt milli 2.000 og 5.000 evrur (275.000 og 690.000 ISK) evrur fyrir allt ferðalagið frá heimili sínu til Evrópusambandsins. Nú greiði það allt að 3.000 evrur (414.000 ISK) fyrir aðeins einn áfanga á leið sinni segir í Europol-skýrslunni sem birtist mánudaginn 27. júní.

Þetta megi rekja til þess að helstu leið flótta- og farandfólksins um Tyrkland, Grikkland og Balkanlöndin hafi verið lokað eftir að samningar tókust milli ESB og Tyrkja í mars og eftir að ríkin fyrir norðan Grikkland lokuðu landamærum sínum.

Tölurnar sýna að samningurinn við Tyrki hefur þjónað tilgangi sínum því að nú fari aðeins 40 til 50 manns á dag frá Tyrklandi til Grikklands í samanburði við þúsundir manna á dag í fyrra. Alls er talið að um 150.000 manns hafi komist frá Tyrklandi til Grikklands á þessu ári og langflestir áður en samningur ESB og Tyrkja gekk í gildi.

Hærra gjald til smyglara tekur einnig mið af því að ferðalagið til Evrópu hefur lengst til mikilla muna og mun færri en áður ná að komast til fyrirheitnu landanna, Þýskalands og Norðurlandanna. Í fyrra tók ferðalagið kannski eina eða tvær vikur nú kann það taka marga mánuði segir Europol.

Spurn eftir smyglurum hefur aukist eftir að leiðum farandfólks til að komast úr einu landi í annað hefur verið lokað. Frá janúar fram í júní 2016 bárust Europol upplýsingar um að rúmlega 7.000 nýir einstaklingar væru undir grun um að taka að sér smygl á fólki, 95% voru karlar og meðalaldur þeirra 36 ár.

Þeim hefur fjölgað sem liggja undir grun fyrir að smygla fólki frá Pakistan, löndum fyrir sunnan Sahara, Rússlandi og Úkraínu, segir Europol. Færri en áður en nú smyglað frá Norður-Afríku, Balkanlöndunum og Mið- og Austur-Evrópu. Smyglararnir hafa oft tengsl við fíkniefna- og þjófagengi.

Samhliða því sem gjaldtaka smyglara af farandfólki hækkar aukast líkur á að það sé notað til vinnu fyrir lág eða engin laun, sé látið greiða smyglurunum á þann hátt. Europol segir að árið 2015 hafi 0,2% aðkomumanna sagt að þeir hafi verið neyddir til að vinna til greiðslu á smyglgjaldi en á árinu 2016 er þessi tala 5%.

Europol telur að smyglarar leiti nú leiða til að koma fólki til Evrópu án þess að fara um eyjar við Grikkland og Ítalíu þar sem ESB hafi sett upp skráningarstöðvar.

„Búast má við auknum þrýstingu á öðrum leiðum,“ segir í skýrslu Europol. Smyglarar muni hætta að reyna fyrir sér í Grikklandi, á Ítalíu eða Balkanlöndunum og snúa sér beint að auðaugri löndum norðar í Evrópu. Þá sé líklegt að smyglgjaldið muni hækka enn frekar í samræmi við lengri ferðalög í skjóli smyglaranna.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …