Home / Fréttir / Europol: Skipulögðum hátækniglæpum fjölgar í Evrópu

Europol: Skipulögðum hátækniglæpum fjölgar í Evrópu

Höfuðstöðvar Europol í Haag, Hollandi.
Höfuðstöðvar Europol í Haag, Hollandi.

Í nýjustu skýrslu Europol (Evrópulögreglunna) um skipulagða glæpastarfsemi sem birtist fyrir skömmu segir að um 5.000 virkir, skipulagðir glæpahópar hafi verið greindir í Evrópu. Fjölgunin hafi orðið mest meðal nýrra hópa sem reisi starfsemi sína nær eingöngu á hátæknilegum aðferðum.

Rob Wainwright, forstjóri Europol, sagði að skipulögðum glæpahópum í skýrslu lögreglunnar hefði fjölgað vegna „betri upplýsingaöflunar“ og með tilkomu minni hópa sem starfi eingöngu í netheimum.

Áður en skýrslan kom út núna hafði sambærlileg Europol-skýrsla ekki verið birt síðan 2013. Þá var talið að virkir alþjóðlegir hátækni glæpahópar í aðildarlöndunum 28, þar á meðal Íslandi, væru um 3.600.

Undi hátækniglæpi falla til dæmis skjalafals, peningaþvætti og netsala með illa fenginn varning. „Í skjóli þverfaglegra afbrota af þessu tagi þróast mest ef ekki öll önnur tegund af alvarlegum og skipulögðum afbrotum eins og fíkniefnasala og mansal,“ segir í skýrslunni.

Europol bendir á að meðal nýjunga sem glæpamenn nýti sér séu drónar. Þeir hafi orðið vinsælir hjá fíkniefnasölum, auðveldir í notkun og erfitt sé að finna þá – einkum þegar reynt sé að koma efnum í sölu á lokuðum, vel vörðum svæðum þar sem eftirspurn er mikil eins og í fangelsum.

Fíkniefnasala skapar glæpamönnum mestar tekjur í Evrópu, þær eru 24 milljarðar evra á ári, segir Europol.

Þá reynist einnig arðbært að stunda smygl á fólki þegar fleiri en áður reyna að komast ólöglega til Evrópu frá Mið-Austurlöndum og Afríku. Europol telur að næstum allir sem reyna að komast til Evrópu eftir óvenjulegum leiðum nýti sér „þjónustu“ glæpahópa einhvers staðar á leiðinni.

Þá fjallar skýrslan einnig um falsanir á peningaseðlum og skilríkjum, vopnasölu og tölvuglæpi, þar á meðal „gíslatökuforrit“ sem lokar tölvu einstaklings eða fyrirtækis og opnar hana ekki að nýju nema gegn greiðslu „lausnargjalds“.

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …