Home / Fréttir / Estonia-slysið í nýtt ljós í heimildarmynd

Estonia-slysið í nýtt ljós í heimildarmynd

 

Ferjan Estonia
Ferjan Estonia

Mánudaginn 28. september 2020 þegar 26 ár eru liðin frá sjóslysinu mikla þegar farþegaferjan Estonia sökk birtast nýjar upplýsingar sem kunna að varpa algjörlega nýju ljósi á það sem gerðist.

Að kvöldi 27. september 1994 sigldi ferjan Estonia frá Tallin, höfuðborg Eistlands, í átt til Värta-ferjuhafnarinnar í austurhluta Stokkhólms. Það var stormur á hafi úti og allt að sex metra ölduhæð. Um borð voru 989 manns, 803 farþegar og 186 í áhöfn. Um miðnættið höfðu margir gengið til svefns en aðrir lögðu leið sína á bari og ölstofur víða um 157 m langt skipið.

Skyndilega heyrðust miklir skruðningar og skipið tók að halla á stjórnborða. Allt gerðist með miklum hraða. Farþegar sáu vatn streyma inn í káettur sínar sem voru undir bílaþilfarinu og frá brúnni bárust sífellt ákafari neyðarköll sem bárust til annarra ferja á fjölfarinni siglingaleið milli Svíþjóðar og Eystrasaltslandanna eða Finnlands. Estonia var um 35 km fyrir suðaustan finnsku Útey, úti á úfnu Eystrasalti.

Innan við klukkustund frá því að skruðningarnir heyrðust var Estonia horfin í hafdjúpið. Alls fórust 852 en 137 komust í björgunarbáta. Þeir reyndust ekki allir vel búnir og sumir voru tímunum saman í köldum sjó þar til þeim var bjargað um borð í skip eða björgunarþyrlur frá Finnlandi og Svíþjóð.

Slysið var fljótlega skýrt á þann veg að bógport hefði gefið sig vegna mikils sjógangs í veðrinu og sjór flætt inn á bílaþilfarið. Skipuð var alþjóðleg sjóslysanefnd undir eistneskri formennsku og komst hún að sömu niðurstöðu árið 1997.

Ákveðið var að friða flakið sem grafreit á hafsbotni og þess vegna má ekki kafa niður að skipinu. Samningur um þetta efni var undirritaður af fulltrúum Finnlands, Eistlands, Lettlands, Litháens, Rússlands, Póllands, Svíþjóðar, Danmerkur og Bretlands. Sænsk yfirvöld lögðu á sínum tíma til að lagt yrði grjót yfir flakið en því var hafnað og nú liggur Estonia að mestu opin á um það bil 85 m dýpi á botni Eystrasalts.

Aðstandendur, kafarar og þeir sem þekktu náið til slyssins hafa árum saman lýst efasemdum um niðurstöðu sjóslysanefndarinnar. Í þessum hópi eru til dæmis tveir skipverjar. þeir einu sem björguðust úr áhöfninni. Þeir áttu að gæta bógportsins og segja að það hafi ekki brostið þegar skruðningarnir heyrust.

Nú, 28. september 2020, berast síðan alveg nýjar upplýsingar með heimildamyndarþáttunum Estonia – uppgötvunin sem öllu breytir sem sýnd er á Dplay hjá Discovery-stöðinni.

Þáttargerðarmenn um borð í þýsku skipi sem notuðu neðansjávar-dróna tóku myndir af flakinu af Estoniu. Þeir festu á mynd stórt gat á stjórnborðshlið ferjunnar ­– til þessa hefur engin skýring verið gefin á því. Gatið er fjögurra metra hátt og tveggja metra breitt.

Í heimildarmyndinni segir að þetta stóra gat skýri hvers vegna ferjan sökk svona hratt og hvers vegna vatn flæddi inn í káetturnar undir bílaþilfarinu og spurningar vakni um hvort slysið megi í raun rekja til þess að bógportið hafi brotnað.

Í myndinni er rætt við sérfræðinga sem hafna því að sprengja hafi valdið gatinu á skipsskrokknum. Rannsóknarhópur við Tækniháskólann í Þrándheimi hefur komist að þeirri niðurstöðu eftir athuganir sínar að gatið á Estoniu megi frekar skýra með ytri þrýstingi – til dæmis að meðalstór kafbátur hafi rekist á farþegaferjuna.

Annað skip kemur einnig til álita. Í heimildarmyndinni er ekki tekið skýrt af skarið um hvort gatið á skrokknum megi hugsanlega rekja til höggsins þegar skipið sökk en sérfræðingarnir telja það ólíklegt. Stóra spurningin er hvort einhver hafði þann ásetning að granda þessu stóra farþegaskipi og hafi þess vegna 852 mannslíf á samviskunni.

Þegar 10 ár voru liðin frá Estonia-slysinu skýrði yfirtollvörðurinn í Värta-höfninni í Stokkhólmi frá því að sér og mönnum sínum hefði verið tilkynnt frá „æðstu stöðum“ að á næstunni kæmi flutningabíll með Estoniu og ættu tollverðirnir að láta hann í friði. Þetta gerðist m.a. 14. september og 20. september. Það hefur síðar verið sagt frá því að leynilegasta deild leyniþjónustu sænska hersins vissi af því að smyglað var hernaðarlegum rafeindatækjum frá Sovétríkjunum fyrrverandi til Vesturlanda. Látið var að því liggja að tækin hefðu átt að fara til bresku leyniþjónustunnar, MI6. Við höfnina í Tallin sáu vitni að herbílum var ekið um borð í ferjuna áður en hún lagði úr höfn í hinsta sinn.

Eftir að Sovétríkin hrundu vissi enginn um hvernig farið var með öll vopnakerfi þeirra. Hitt er vitað að einhverjum vopnabúnaði var smyglað um Eystrasaltslöndin til Svíþjóðar og þaðan vestur á bóginn. Frá því hefur einnig verið skýrt að Rússar sendu viðvörun til MI6 um að tafarlaust yrði tekið fyrir þetta smygl.

Ríkisstjórnir Svíþjóðar, Finnlands og Eistlands tilkynntu að morgni mánudags 28. september 2020 að með vísan til Dplay-heimildarmyndarinnar mundu þær grandskoða nýjar upplýsingar sem þar birtist. Þær treysti þó á opinberar skýringar um slysið eins og þær hafi birst á sínum tíma.

 

Heimild: Jyllands-Posten.

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …