Home / Fréttir / Esbjerghöfn verði miðstöð NATO-herflutninga

Esbjerghöfn verði miðstöð NATO-herflutninga

 

Bandarískir hermenn og bryndrekar við Esbjerghöfn.

Danska ríkisstjórnin stefnir að því að höfnin í Esbjerg á Jótlandi gegni lykilhlutverki við flutning á hergögnum frá Bandaríkjunum og öðrum NATO-löndum fyrir Eystrasaltssvæðið og Eystrasaltslöndin.

Þetta segir í fréttatilkynningu danska varnarmálaráðuneytisins og jafnframt að síðdegis föstudaginn 20. maí fari Morten Bødskov varnarmálaráðherra til Esbjerg og kynni sér aðstæður við höfnina og hvernig best verði staðið að því að gera hana að hernaðarlegri miðstöð.

Í frétt danska ríkisútvarpsins, DR, segir að einkum Bandaríkjamenn hafi óskað eftir að fá afnot af Esbjerghöfn í þessu skyni. Þeir hafi notað hana hvað eftir annað vegna heræfinga, til dæmis í byrjun apríl 2022 þegar 300 bandarískum bryndrekum var ekið á land í Esbjerg.

„Hér er um miklar fjárfestingar að ræða,“ segir danski varnarmálaráðherrann og segir að ríkisstjórnin muni að líkindum samþykkja að hún sé fús til viðræðna um hvernig tryggja megi að Esbjerghöfn geti þjónað því mikilvæga hlutverki að Danmörk verði upphafsstaður hergagnaflutninga á vegum NATO um Danmörku.

Næsta skref er að kortleggja nauðsynlegar framkvæmdir á hafnarsvæðinu, áætla kostnað og framkvæma umhverfismat. Ríkisstjórnin vinnur jafnframt að því að afla pólitísks stuðnings við verkefnið.

Ríkisstjórnin gerir sér vonir um að fyrir árslok 2023 verði umbótum í höfninni lokið.

DR segir að það sé ekki nein tilviljun að Bandaríkjamenn hafi augastað á Esbjerg. Lega hafnarinnar og stærð sé góð, hún er nálægt flugvelli og tenging hennar við járnbrautar- og vegakerfið sé góð. Þá séu nokkrir stórir gistiskálar til reiðu í nálægum herbúðum.

Mads Korsager, varnarmálasérfræðingur DR, segir líklegt að NATO-heræfingum fjölgi og þar með hernaðarleg umferð um Esbjerghöfn. Þá hafi stríðið í Úkraínu áhrif á allar ákvarðanir sem nú séu teknar. Þar sýni Rússar að þeir hiki ekki við að beita hervaldi til að ná markmiðum sínum og þess vegna séu allar varnir gegn þeim efldar. Danir verði að sýna að þeir leggi sitt af mörkum í því skyni.

Frá árinu 1874 hefur Esbjerghöfn skipt Dani miklu í sjóflutningum og viðskiptum um heim allan. Hún var áður stór fiskipahöfn með um 600 fiskiskip. Nú er hún helsta útflutningshöfn á vindmyllum frá Evrópu. Rúmlega 200 fyrirtæki starfa í nágrenni hafnarinnar með um 10.000 starfsmönnum. Athafnasvæði hafnarinnar nær samtals yfir 4,5 milljónir fermetra og hefur engin dönsk höfn stærra athafnasvæði.

Søren Gade, fyrrv. varnarmálaráðherra Danmerkur, er formaður hafnarstjórnarinnar í Esbjerg.

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …