
Flutningaskip bandaríska hersins leggst að bryggju í Esbjerg-höfn á vesturströnd Jótlands mánudaginn 22. ágúst með þúsundir hergagna, búnaðar og ökutækja auk 44 þyrlna.
Allt er þetta flutt til Evrópu frá Bandaríkjunum nú þegar skipt er um einingar í 7.000 manna bandarískum herafla í Evrópu. Liðið hefur dvalist í álfunni síðan 2014 undir aðgerðarheitinu Atlantic Resolve.
Lars Skjoldan, upplýsingafulltrúi dönsku herstjórnarinnar, sagði við Jyllands-Posten að í Esbjerg væri uppskipunarhöfn fyrir bandaríska herinn í Evrópu en allt sem þar væri sett á land færi til bandarískra herstöðva víðs vegar í Evrópu.
„Öllu er landað úr flutningaskipinu í Esbjerg höfn, síðan er farið yfir allar þyrlurnar og þeim flogið til Esbjerg flugvallar, þar er endanlega gengið frá öllu um borð í þeim svo að þeim megi fljúga til starfsstöðva sinna. Það gerist á nokkrum dögum,“ segir Skjoldan.
Hann getur ekki skýrt nákvæmlega frá hvernig að verki verður staðið eða hvað sé um borð í flutningaskipinu. Hann segir þó að um 1.500 hlutir, búnaður og ökutæki, komi á land í höfninni, einskonar fylgihlutir svo að tryggja megi að unnt sé að starfrækja flutningaþyrlurnar 44.
Jyllands-Posten segir að aðgerðin mánudaginn 22. ágúst sé síðasti liður í mati bandarísku herstjórnarinnar á því hvort hún geti notað Esbjerg höfn til frambúðar sem athafnasvæði sitt við flutninga sjóleiðis til og frá Evrópu.
Í fyrra stóðst höfnin kröfur Bandaríkjamanna við flutning á mönnum, miklum varningi og ólíkum gerðum af bryndrekum. Nú reynir sem sagt á flutning á þyrlum og því sem þeim fylgir. Segir blaðið að líta beri á þetta sem lokapróf Esbjerg hafnar. Standist höfnin prófið verður hún hluti af gistiríkjakerfi NATO (e. Host Nation Support).