Home / Fréttir / ESB veldur uppnámi á Balkanskaga – Rússar nýta sér það

ESB veldur uppnámi á Balkanskaga – Rússar nýta sér það

 

Frá Skopje í Norður-Makedóní
Frá Skopje í Norður-Makedóníu

Nú í vikunni lauk sameiginlegri heræfingu NATO-samstarfsríkisins Serbíu og Rússlands. Hæst bar æfingin á svæðinu Pasuljanske-Levade nokkur hundruð kílómetra fyrir suðaustan Belgrad.

„Við skotæfingar eyðilögðu þeir sem stjórnuðu loftvarnaflaugum og vopnakerfinu Patnsir tvö skotmörk á jörðu og tvö á flugi sem áttu að vera fjandsamleg,“ segir í tilkynningu rússneska varnarmálaráðuneytisins um æfinguna.

Meðal vopna sem send voru á æfingasvæðið voru háþróuð, rússnesk S-400 skotflaugakerfi sem keypt hafa verið af stjórn NATO-ríkisins Tyrklands þrátt fyrir andmæli og reiði Bandaríkjamanna.

S-400 flaugar og Patnsir-skotflaugakerfið höfðu aldrei verið send til æfinga utan Rússlands fyrr en að þessu sinni í Serbíu.

Rússum og öðrum er auðveldað að láta að sér kveða á þessum slóðum vegna þess að nýlega hafnaði ESB að hefja aðildarviðræður við stjórnvöld í Norður-Makedóníu og Albanínu.

Í Jyllands-Posten var fimmtudaginn 31. október rætt við Christian Axboe Nielsen, sérfræðing í málefnum Balkanskaga við Københavns Universitet.

„Ákvörðun ESB er fagnaðarefni öllum ESB-efasemdarmönnum á Balkanskaga. Þarna eru sterk öfl vinveitt Rússum, einkum í Serbíu. Ég er sannfærður um að nú vinna rússneskir embættismenn dag og nótt við að breiða út boðskapinn um „þarna sjá menn hvað gerist þegar treyst er á ESB,“ segir Christian Axboe Nielsen.

Hann leggur áherslu á að skilja verði á milli upphafs aðildarviðræðna og raunverulegrar ESB-aðildar sem komi ef til vill ekki til sögunnar fyrr en eftir mörg ár.

„Þótt aðildarviðræður hefðu hafist nú hefði enginn búist við aðild Norður-Makedóníu eða Albaníu fyrr en kannski 2028 eða 2030. Þar að auki er aðeins um 5 milljónir manna að ræða miðað við rúmlega 500 milljóna íbúa inna ESB. Ég get ekki séð í ljósi þessa að vandræðin við að hefja viðræður hefðu á nokkurn hátt getað orðið meiri en vandræðin sem er hætta á að verði á þessu svæði. Þetta er ákaflega dapurlegt og mestu mistök sem ESB hefur gert á Balkanskaga síðan í stríðinu þar,“ segir Christian Axboe Nielsen.

Aleksandar Vucic, forseti Serbíu, afsakaði einnig aukin tengsl sín við Rússa og Kínverja með því að segja hve erfitt væri að treysta á ESB.

„Við neyðumst til að gæta okkar sjálf. Það er eina leiðin og eina afstaðan. Allt annað væri ábyrgðarleysi,“ sagði Vucic við The Financial Times.

Serbar hafa ritað undir fríverslunarsamning við Efnahagssamband Evrasíu, rússneskt viðskiptabandalag fimm landa.

Serbar hafa átt náið samstarf við NATO frá árinu 2006 og árið 2013 hófu fulltrúar Serba aðildarviðræður við ESB. Serbar stunda samt heræfingar með Rússum og gera viðskiptasamninga við höfuðandstæðing Vestur-Evrópu, Rússa.

Vucic telur að höfnun ESB-leiðtogaráðsins á aðildarviðræðum við Norður-Makedóníumenn og Albani sýni að hann sé á réttri leið. Sérstaklega hafi verið farið illa með Norður-Makedóníumenn, þeir hafi sinnt öllum kröfum ESB og samið um nýtt nafn á landi sínu við Grikki. Þrátt fyrir þetta hafi ESB skellt á þá vegna ágreinings meðal leiðtoga ESB-ríkjanna.

Frakkar beittu sér mest gegn því að aðildarviðræður hæfust en Danir og Hollendingar lýstu einnig miklum efasemdum þegar fyrst var rætt um Norður-Makedóníu og Albaníu á fundi utanríkisráðherra ESB-ríkjanna og síðan í leiðtogaráði ESB. Framkvæmdastjórn ESB telur að ríkin fullnægi kröfum sambandsins en andmælendur viðræðna við þá segja að ESB hafi ekki burði til að stækka meira um þessar mundir þegar litið sé til þeirra verkefna sem óleyst eru innan sambandsins.

Ákvörðun um viðræður var frestað og af því draga stjórnendur annarra Balkanlanda lærdóm.

„Við getum ekki látið stjórnast af næstu ákvörðun leiðtogaráðs ESB eða af því hvort hollenska ríkisstjórnin ákveður þetta eða hitt eða hvort danska ríkisstjórnin gerir eitthvað annað en við væntum,“ sagði Vucic.

Í fyrri viku sást betur en áður að Rússar ætla að nýta sér neikvæða afstöðu ESB til að auka áhrif sín á Balkanskaga. Stjórnir Norður-Makedóníu og Albaníu fengu fyrir skömmu formlegt boð um að ganga í Efnahagssamband Evrasíu.

Stjórnin í Norður-Makedóníu varð fyrir miklu áfalli við höfnun ESB. Zoran Zaev forsætisráðherra hefur lagt hart að sér við að opna ESB-brautina. Hann ákvað að biðjast lausnar og boða til þingkosninga til að kanna hvort hann hefði áfram umboð til að veita þjóðinni forystu. Kosið verður í vor.

„Okkur hefur verið sýnt mikið óréttlæti. ESB hefur ekki staðið við eigin loforð,“ sagði Zaev.

Christian Axboe Nielsen er sammála honum. Þetta geti grafið undan stöðugleika á Balkanskaga.

„Þegar litið er til Norður-Makedóníu er réttmætt að tala um hrein svik ESB á loforði. Þeir hafa gert allt sem ESB krafðist og meira að segja orðið að kyngja því sem mörgum þótti súrt að skipta um nafn á landi sínu til að efla öryggi á svæðinu. Og svo standa þeir með allt niður um sig af því að ekki er staðið við það sem þeim var lofað,“ segir hann.

„Í þessu felst aðför að stöðugleika á svæðinu. Í Norður-Makedóníu er um þriðjungur þjóðarinnar af albönskum uppruna. Innfæddum Makedóníumönnum var þvert um geð að breyta um nafn á landi sínu. Þá hafa verið samþykkt lög til stuðnings albönsku á opinberum vettvangi í Norður-Makedóníu. Allt stuðlar þetta í sjálfu sér að meira öryggi. Nú er hætta á því að til sögunnar komi íhaldssöm eða þjóðernissinnuð ríkisstjórn sem setji fleyg inn í þjóðlífið að nýju. Það verður reiðarslag fyrir íbúa af albönskum uppruna og vandinn teygir sig síðan til Kosóvó og Albaníu.“

Frakkar sögðu þegar þeir höfnuðu viðræðum um aðild að endurskoða yrði reglur ESB um inngöngu nýrra aðildarríkja. Formlegar viðræður standa yfir við Serba og Frakka en ekki við Norður-Makedóníumenn þótt fyrrnefndu þjóðirnar tvær eigi mun lengra í land gagnvart ESB en Norður-Makedóníumenn.

„Það er ekkert sem bannar að ESB móti nýjar reglur um stækkun sína, þar sem

unnt yrði að gerast aðili til bráðabirgða á meðan í ljós kæmi hvort leyfa ætti fulla aðild. Hitt er mikilvægt að standa við það sem hefur verið lofað. Sé það ekki gert hefur það áhrif á ungt fólk sem styður ESB og einnig hina sem eru fyrirfram hatursmenn ESB og vilja helst daðra við Kína, Tyrkland og Rússland,“ segir Christian Axboe Nielsen.

Heimild: Jyllands-Posten

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …