Home / Fréttir / ESB-útgönguskilmálar Breta samþykktir af leiðtogaráði ESB

ESB-útgönguskilmálar Breta samþykktir af leiðtogaráði ESB

 

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, og Thereasa May, forsætisráðherra Breta, á fundi leiðtogaráðsins í Brussel 25. nóvember,
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, og Theresa May, forsætisráðherra Breta, á fundi leiðtogaráðsins í Brussel 25. nóvember,

Sunnudaginn 25. nóvember samþykktu leiðtogar 27 Evrópusambandsríkja útgönguskilmála fyrir 28. ríkið, Bretland, úr sambandinu eftir meira en 40 ára aðild að því.

Samþykkt voru tvö skjöl á fundi leiðtoganna í Brussel, annars vegar 585 bls. skjal sem lögfestir útgönguna og hins vegar pólitísk yfirlýsing. Mælt er fyrir aðskilnaðarskilmálum og lagðar línur um eðli framtíðarsamskiptanna.

Úrsögn Breta verður 29. mars 2019.

Næsta skref er að Theresa May forsætisráðherra leggur skjalið sem þarf að lögfesta fyrir breska þingið. Eins og málum er nú háttað bendir flest til að meirihluti þingmanna felli tillögu May. Stefnt er að atkvæðagreiðslu um málið fyrir jól.

Loka-ágreiningsefnið fyrir sunnudagsfundinn snerist um stöðu Gíbraltar. Hótaði spænski forsætisráðherrann að sækja ekki fundinn tækjust ekki sættir um lausn deilunnar. Hún fannst og segir ráherrann  Spánverja hafa sterkari stöðu í málinu en nokkru sinni.

Á blaðamannafundi eftir að niðurstaðan lá fyrir sagði May að betri samningur næðist ekki og í honum fælist „björt framtíð“ fyrir Breta. Hún svaraði ekki spurningum um hvort hún ætlaði að segja af sér hafnaði neðri deild breska þingsins samkomulaginu. Hún sagðist „full bjartsýni“, Bretar og ESB-þjóðirnar yrðu góðir vinir og nágrannar.

Sunnudaginn 25. nóvember birti May opið bréf til bresku þjóðarinnar og hvatti hana til að styðja samning sinn. Hún ætlar næstu daga í fundaherfeð um Bretland til að kynna niðurstöðuna fyrir almenningi.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði þetta vera „einu niðurstöðuna“ og Bretar skyldu ekki vænta þess að hún gæti batnað. Hvatti hann til þess að breskir þingmenn styddu hana. Juncker sagði:

„Þetta er sorgardagur. Að sjá Bretar fara, og ég mundi segja það sama um hverja aðra þjóð, úr Evrópusambandinu er hvorki gleði- né fagnaðarefni. Þetta er dapurleg stund, sorglegt.“

Antonio Tajani, forseti ESB-þingsins, sagði:

„Þetta er ekki góður dagur í dag.“

Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB, sagði:

„Við höfum samið við Breta, aldrei gegn Bretum. Nú verða allir að axla sína ábyrgð, hver og einn.

Þetta samkomulag er nauðsynlegt til að skapa traust milli Breta og ESB, það er nauðsynlegt vegna næsta áfanga í þessu einstaka og metnaðarfulla samstarfi. Við verðum bandamenn, samstarfsaðilar og vinir.“

Emmanuel Macron Frakklandsforseti:

„Þetta er leiðtogafundur samstöðu og alvöru. Brexit er langt frá því að vera lokið, það eru nokkur skref eftir.“

Angela Merkel Þýskalandskanslari:

„Við viljum eiga nána samvinnu við Breta. Það er rétt sem May sagði, Bretar yfirgefa ESB en ekki Evrópu. Þetta eru vangaveltur [hvort breska þingið felli samkomulagið] og ég get ekkert sagt um þær. Við höfum skuldbundið okkur við mjög erfiðar aðstæður og ég tel að Theresa May, forsætisráðherra Breta, geri allt í hennar valdi til að tryggja að við getum einbeitt okkur að því að ljúka þeirri vegferð sem við hófum.“

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands:

„Þetta er málamiðlun án þess að unnt sé að segja að einhver hafi sigrað, ég tel hana viðundandi. […] Hér eru engir sigurvegarar í dag, enginn sigrar, við töpum öll en miðað við aðstæður er þetta viðunandi.“

 

Heimild: Euronews

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …