Home / Fréttir / ESB: Utanríkis- og varnarmálaráðherrar stíga markvisst skref í átt að ESB-herafla

ESB: Utanríkis- og varnarmálaráðherrar stíga markvisst skref í átt að ESB-herafla

Ráðherrafundasalur ESB.
Ráðherrafundasalur ESB.

Á sameiginlegum fundi utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra ESB-ríkjanna mánudaginn 6. mars var ákveðið að stefna áfram að því að efla varnarsamstarf ríkjanna.

„Þetta snýst um að vernda borgara okkar. ESB ræður yfir einstökum tækjum til að auðvelda Evrópubúum að taka á sig meiri skyldur vegna eigin öryggis og gera það á hagkvæmari hátt en ella væri. Að þessu stefnum við með samstarfi okkar í öryggis- og varnarmálum,“ sagði Federica Mogherini, utanríkis- og öryggismálastjóri ESB.

Unnið er að skipulagsbreytingum sem varða þá sem vinna að hermálum innan skrifstofunnar um utanríkis- og öryggismál hjá ESB, European External Action Service. Ætlunin er að sameina starfslið þannig að starfsemin verði meira miðuð við aðgerðir en almenna áætlanagerð og samhæfingu.

Fyrsta skrefið er að koma á fót nýrri herstjórn til að hafa umsjón með þjálfun og verður hún kennd við Military Planning and Conduct Capability á ensku með

Í herstjórninni verða 30 manns undir forystu finnsks undir-hershöfðingja, Esa Pulkkinens, sem er einnig yfirmaður hernaðarlegrar sérfræðingaskrifstofu ESB. Herstjórnin tekur til starfa í apríl og mun taka við stjórn á þremur þjálfunarverkefnum ESB – í Lýðveldinu Kongó, Malí og Sómalíu.

Federica Mogherini sagði að ekki ætti að líta á nýju herstjórnina sem ESB-her, þótt ýmsir notuðu það orð, hér væri um það að ræða að skipuleggja starfsemi innan ESB á hagkvæmari hátt en áður.

Á vefsíðunni EUobserver segir að Frakkar, Þjóðverjar og Ítalir hafi hvatt til frekari hernaðarlegs samruna innan ESB vegna ákvörðunar Breta um að segja sig úr ESB og vegna aukins óstöðugleika í nágrenni ESB í austri og suðri.

Í september sendu Ítalir frá sér hugmyndaskjal þar sem hvatt var til þess að komið yrði á fót öflugum og starfhæfum Evrópuher sem einnig mætti nota til stuðnings NATO og Sameinuðu þjóðunum.

Finnar og ýmsar aðrar þjóðir hafa hins vegar hvatt til „raunsærri“ samvinnu en Bretar hafa staðið gegn öllu sem líta megi á sem samkeppni við NATO.

Didier Reynders, utanríkisráðherra Belgíu, kallaði nýju herstjórnina „fyrsta skref“ ef til vill yrði síðar unnt að tala um „Evrópuher“.

Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, sagði: „Við stigum mjög mikilvægt skref í áttina að öryggis- og varnarsambandi Evrópu vegna þess að mjög markvissa ákvörðun var að ræða.“

Hún sagði að þjóðir utan ESB, eins og Bretar að lokinni úrsögn, gætu tekið þátt í „einstökum [hernaðarlegum] aðgerðum eða verkefnum.“ Norðmenn sýndu þessu mikinn áhuga og einnig Bretar, sagði hún.

Michael Fallon, varnarmálaráðherra Breta, sagði að Bretar mundu „áfram eiga samstarf við evrópsku bandamennina í varnar- og öryggismálum“.

Hann minnti á að Bretar hefðu öflugt lið í Sofíu og sendu nú hermenn til Eistlands, Póllands og Rúmeníu undir merkjum NATO. Hann sagði að „skynsamar“ ESB-þjóðir eins og Norðurlandaþjóðirnar og Hollendingar væru sama sinnis og Bretar að ESB-her ætti ekki að grafa undan NATO.

Hann gerði einnig lítið úr nýju Military Planning and Conduct Capability stjórninni og sagði: „Ekki er um neina nýja [her]stjórn að ræða, enginn nýr hershöfðingi. Núverandi yfirmaður hernaðarlega starfsliðsins verður forstjóri þeirra sem vinna að hernaðarlegri áætlanagerð og framkvæmdagetu.“

Heimild: EUobserver

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …