Home / Fréttir / ESB-þingmenn samþykkja að svipta Marine Le Pen þinghelgi

ESB-þingmenn samþykkja að svipta Marine Le Pen þinghelgi

Marine Le Pen
Marine Le Pen

Marine Le Pen, forsetaframbjóðandi Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi, hefur verið svipt þinghelgi á ESB-þinginu. Eftir það getur hún sætt ákæru fyrir rétti í París fyrir að hafa sett færslur  með myndum sem sýndu grimmd liðsmanna Daesh (Ríkis íslams) á Twitter árið 2015.

Þingmenn á ESB-þinginu tóku afstöðu til tillögunnar um afnám þinghelginnar með því að rétta upp hendur við atkvæðagreiðsluna fimmtudaginn 2. mars. „Ég tel niðurstöðuna skýra – augljós meirihluti styður þetta,“ sagði forsetinn sem stýrði þingfundinum.

Meðal myndanna sem Marine Le Pen setti á Twitter var ein af James Foley, bandarískum blaðamanni, sem hryðjuverkamennirnir gerðu höfðinu styttri.

Marine Le Pen er sökuð um að hafa „birt ofbeldisfullar myndir“. Brotið getur leitt til allt að þriggja ára fangelsisrefsingar og allt að 75.000 evru sektar.

Kannanir vegna frönsku forsetakosninganna sem fram fara 23. apríl sýna að Marine Le Pen nýtur stuðnings flestra í fyrri umferð kosninganna. Þá er venja að kjósendur velji þann sem þeir vilja helst að sigri.

Seinni umferðin verður 6. maí en þá er venja að kjósendur velji þann sem þeir vilja síst sjá sem forseta og benda kannanir til að þá tapi Marine Le Pen.

Óljóst er á þessari stundu hvor muni sigra í seinni umferðinni Françios Fillon, frambjóðandi Lýðveldisflokksins (mið-hægri), eða Emmanuel Macron, frambjóðandi flokksins Áfram (mið-vinstri).

Marine Le Pen er ekki ein franskra frambjóðenda í útistöðum við lögin á lokametrum kosningabaráttunnar.

François Fillon á undir högg að sækja vegna ásakana um „gervigreiðslur“ til Penelope, eiginkonu sinnar og tveggja barna þeirra. Hann hafi notað starfskostnaðarfé sitt sem þingmaður til að greiða þeim fyrir vinnu sem sagt er að þau hafi ekki unnið.

François Fillon er kallaður til yfirheyrslu hjá lögreglunni 15. mars vegna þessa máls en framboðsfrestur vegna forsetakosninganna rennur út 17. mars. Á blaðamannafundi miðvikudaginn 1. mars sagði hann þessa dagsetningu yfirheyrslunnar enga tilviljun, hún sýndi enn að um pólitíska aðför að sér og fjölskyldu sinni væri að ræða. Hann mundi berjast og láta kjósendur fella dóm yfir sér enda hefði hann ekki brotið nein lög.

 

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …