
Rökstuddur grunur er um að Rússar leggi þeim flokkum lið í kosningunum til ESB-þingsins í maí sem gagnrýnastir eru á ESB. Þetta falli að þeim aðferðum sem nágranni ESB í austri beiti þegar efnt sé til kosninga í ýmsum löndum, segir þýska fréttastofan Deutsche Welle sunnudaginn 14. apríl.
Í fréttinni kemur fram að öryggisstofnanir innan ESB fylgist náið með tilraunum Rússa til að blanda sér í ESB-þingkosningarnar. Vísað er til skýrslu frá stofnununum sem önnur þýsk fréttastofa DPA hafi sagt frá laugardaginn 13. apríl.
Í skýrslunni segir að Rússar leggi sig fram um að auka stuðning við flokka sem gagnrýni ESB eða sýni Rússum vináttu. Þá sé einnig gert lítið úr gildi ESB-þingsins í von um að draga á þann veg úr kjörsókn.
Athygli sé einkum beint að ungum kjósendum á samfélagsmiðlum eða með því að nota rússneska ríkisfjölmiðla.
Rússneska utanríkisráðuneytið sendi orðsendingu til DPA og sagði að Rússar blönduðu sér ekki í ESB-þingkosningarnar og ætluðu ekki að gera það í öðrum kosningum.
Leyniþjónustustofnanir í Bandaríkjunum segja að Rússar hafi blandað sér í bandarísku forsetakosningarnar árið 2016 til að ýta undir stuðning við Donald Trump.
Rússar veittu Þjóðfylkingu Marine Le Pen í Frakklandi fjárhagslegan stuðning í forsetakosningunum árið 2017. Marine Le Pen hefur talað máli Pútins og Rússa.
Háttsettir öryggisforingjar sögðu DPA að aðgerðir Rússa vegna ESB-kosninganna í ár væru ekki næstum eins sýnilegar og afskipti þeirra að kosningum áður.
Talið er að brottrekstur rúmlega 150 starfsmanna úr rússneskum sendiráðum í ESB-löndum og Bandaríkjunum kynni að hafa skapað vandræði innan rússneska njósnakerfisins, dregið úr hæfni þess til að láta að sér kveða erlendis.
Þá er bent á erfiðleika við að hafa hendur í hári þeirra standa að inngripinu í evrópsk stjórnmál. Talið er að Rússar skipti sér í hópa til að skapa eftirlitsaðilum á vegum ESB-ríkjanna vandræði.