Home / Fréttir / ESB-þingið vill árvekni gegn Rússum og Kínverjum á norðurslóðum

ESB-þingið vill árvekni gegn Rússum og Kínverjum á norðurslóðum

Rússneskur ísbrjótur.

ESB-þingið samþykkti miðvikudaginn 6. október ályktun um málefni norðurslóða (Arctic) þar sem segir að norðurslóðastefna ESB eigi að snúast um umhverfismál og öryggi á siglingaleiðum. Auk þess sem sérstaklega sé hugað að hagsmunagæslu á svæðinu í ljósi þess að mikilvægi þess aukist sífellt í efnahagslegu og geópólitísku tilliti.

Í umræðum um ályktunina var bent á að hafa yrði auga með auknum hernaðarlegum umsvifum Rússa á Norðurslóðum auk þess sem fylgjast yrði með fjárfestingum Kína í þessum „brothætta“ hluta heims.

Ályktunin var samþykkt nokkrum dögum áður en vænst er að framkvæmdastjórn ESB kynni uppfærða norðurslóðastefnu sína þar sem tekið verði mið af skoðununum ESB-þingsins.

Í ræðum ESB-þingmanna komu fram áhyggjur yfir því hve ágengir Rússar virtust vera á norðurslóðum og ekkert lát væri á framkvæmd áforma þeirra um fjölgun kjarnorkuvopna á hafi úti fyrir utan smíði nýrra ísbrjóta en svo virtist sem ætlunin væri að búa þá stýriflaugum og kerfum til að stunda rafeindahernað.

Bent var á að mikilvægt væri að fylgjast náið með hverju skrefi af hálfu Rússa sem ógna kynni frjálsum siglingum á þessum slóðum. Þeir hefðu þegar lokað fyrir þær á Azov-hafi, hluta Svartahafs og Eystrasalts. Þá hefðu þeir sett reglur til að takmarka siglingar um Norðurleiðina milli Atlantshafs og Kyrrahafs.

Höfuðáherslu yrði að leggja á kröfur um að hernaðarumsvif á norðurslóðum væru „fyrirsjáanleg“ og „gegnsæ“. Að öðrum kosti kynni að koma til árekstra og grafið yrði undan öryggi.

Þingmennirnir hvöttu Rússa til að virða alþjóðalög. Þrátt fyrir samstarf við Rússa á norðurslóðum mætti ekki minnka vægi refsiaðgerða gegn rússneskum stjórnvöldum vegna framgöngu þeirra annars staðar.

Vakið var máls á miklum fjárfestingum Kínverja í nýjum ísbrjótum og lykil-hafnarmannvirkjum við Norðurleiðina. Hvöttu þingmennirnir til að ESB gætti þess að láta ekki í minni pokann fyrir þriðju ríkjum sem vildu koma ár sinni þarna fyrir borð,

Framkvæmdastjórn ESB var hvött til að greina tilraunir Kínverja til að fella Norðurleiðina inn í fjárfestingarframtak sitt sem kennt er við belti og braut. Tilraunirnar sýni að hætta sé á að ekki takist að koma í veg fyrir að norðurslóðir verði átakasvæði í geópólitísku tilliti.

Heimild: EUobserver

 

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …