Home / Fréttir / ESB-þingið: Samþykkt að innleiða nýtt vörslukerfi á ytri landamærum Schengen-svæðisins

ESB-þingið: Samþykkt að innleiða nýtt vörslukerfi á ytri landamærum Schengen-svæðisins

Við landamæravörslu.
Við landamæravörslu.

ESB-þingið samþykkti miðvikudaginn 25. október nauðsynlegar heimildir fyrir framkvæmdastjórn ESB, leiðtogaráð ESB og ráð Schengen-samstarfsríkjanna til að innleiða nýtt eftirlitskerfi á ytri landamærum Schengen-svæðisins.

Á ensku er talað um entry-exit system sem verði hluti af starfsreglum og gagnarunnum vegna vörslu ytri landamæra Schengen-svæðisins.

Gerður verður gagnagrunnur um alla ferðamenn sem fá vegabréfsáritun eða þurfa hana ekki en geta dvalist allt að 90 daga á Schengen-svæðinu. Þá verða allir sem eru ekki borgarar á EES-svæðinu skráðir í grunninn þegar þeir koma inn á Schengen-svæðið eða yfirgefa það eða fá ekki leyfi til að koma inn á Schengen-svæðið.

Það er talið kosta 480 milljónir evra að innleiða kerfið sem kemur í stað þess að stimplað sé í vegabréf við komu eða brottför. Talið er að kerfið hraði afgreiðslu við landamæri og auðveldi eftirlit með þeim sem brjóta gegn 90 daga reglunni auk þess sem auðveldara verður að greina fölsuð skilríki eða þegar reynt er að villa á sér heimildir.

Gögn verða geymd í grunninum í allt að fimm ár. Yfirvöldum er heimilt að leita í grunninum til að koma í veg fyrir eða rannsaka hryðjuverk og aðra alvarlega glæpi. Europopl, Evrópulögreglan, mun hafa aðgang að gagnagrunninum og útendingastofnanir einstakra Schengen-ríkja.

Þegar málið var afgreitt á ESB-þinginu naut það víðtæks stuðnings (496 með 137 á móti og 32 auð atkvæði).

Lagðist þingflokkur sem kallast á ensku European United Left – Nordic Green Left (GUE/NGL) Group, það er  evrópskir vinstri og norrænir grænir, gegn samþykkt tillögunnar þar sem gagnagrunnskerfið væri of dýrt og til skammar fyrir ESB.

Franski ESB-þingmaðurinn Marie-Christine Vergiat sagði að upphaflega hefði markmiði textanna verið lýst á þann veg að þeim væri ætlað að greiða för um 50 milljón manna frá þriðju ríkjum sem koma árlega til ESB-ríkja. Nú væri kerfinu einkum ætlað að greina fólk sem býr við óvenjulegar aðstæður og auðvelda brottflutning. Þvingunaraðgerðum væri beitt af hálfu ESB með því að nota öryggið sem skálkaskjól. Í þessu skjóli ætti að safna viðkæmum persónuupplýsingum, meðal annars í samvinnu við þriðju ríki eins og Súdan. Hún sagði Evrópu vera að breytast í öryggisbyrgi, þar græfu menn undan eigin gildum og leituðu að blórabögglum í stað þess að takast á við vandamálin og fullnægja alþjóðlegum skyldum sínum.

Stefnt er að því að kerfið verði tekið í notkun á árinu 2020.

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …