Home / Fréttir / ESB-þingið heiðrar málsvara Uighura í Kína

ESB-þingið heiðrar málsvara Uighura í Kína

 

Ilham Tohti
Ilham Tohti

ESB-þingið veitti fimmtudaginn 24. október Sakharov-verðlaunin til Ilhams Tohtis. Hann situr í fangelsi í Kína fyrir baráttu í þágu Uighur-minnihlutans. Þegar David Sassoli þingforseti tilkynnti verðlaunaveitinguna hvatti hann kínversk yfirvöld til að láta Tohti „tafarlaust“ lausan.

Tohti afplánar nú lífstíðardóm fyrir að stuðla að sundrung innan Kína. Líklegt er að tilnefning hans veki reiði kínerskra stjórnvalda sem bregðast illa við allri gagnrýni á meðferð hans.

Álitið er að um milljón Uighurar og aðrir múslimar séu í haldi í búðum í Xinjiang sem kínversk stjórnvöld lýsa sem endurmenntunar- og þjálfunarbúðum en aðgerðarsinnar segja að séu fangabúðir.

Vegna vaxandi alþjóðlegrar gagnrýni á framgöngu sína í Xinjiang segja kínversk stjórnvöld að þau reyni að stemma stigu við öfgahyggju í þessu afskekkta héraði í vesturhluta Kína. Þar hafi „boðendur fáránleika“ úr hópi íslamskra öfgamanna breytt sumum íbúanna í „morðóða djöfla“.

Verðlaunin sem kennd eru við sovéska eðlisfræðinginn Andrei Sakharov eru veitt árlega, í fyrsta sinn árið 1988. Með þeim vill ESB-þingið heiðra einstaklinga og samtök sem standa vörð um mannréttindi og grundvallar frelsi.

Í fyrra fékk Oleg Sentsov, kvikmyndagerðarmaður í Úkraínu, verðlaunin en hann hefur ekki enn tekið við þeim. Þess er vænst að hann geri það á næstunni við athöfn í Strassborg. Sentsov var fangi Rússa sem slepptu honum fyrr á þessu ári í fangaskiptum við stjórn Úkraínu.

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …